148. löggjafarþing — 8. fundur,  22. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[20:23]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni góða og markvissa ræðu og ekki síður fyrir mjög góðar og mikilvægar spurningar. Ég hlakka til samstarfs við hv. þingmann sem formanns velferðarnefndar.

Hún spyr mig fyrst og fremst um stöðu Landspítalans – háskólasjúkrahúss. Ég verð að dvelja aðeins við orðalagið sem hún notar þegar hún segir að við eigum ekki að setja handahófskennda summu inn í Landspítalann. Það er ekki þannig sem þetta var gert heldur var sérstaklega hlustað eftir því hvað það var sem Landspítalinn taldi sig fyrst og fremst þurfa.

Varðandi það sem út af stendur segir Landspítalinn – háskólasjúkrahús sjálfur, í umsögn um fjárlagafrumvarpið, að þau séu með sirka 100 millj. kr. halla fyrir 2017 ef þau fái allt sem hefur verið lofað. Nú er verið að koma mun betur til móts við Landspítalann fyrir árið 2018. Í fyrsta lagi vegna þess sem kallað er kerfislægur vöxtur, þ.e. 1,8% hækkun á milli ára, sem er það sem Landspítalinn hefur óskað eftir að fá inn í sinn grunn. Og einnig er verið að mæta helstu atriðum í rekstri sem Landspítalinn nefnir líka. Ég nefni jáeindaskannann, nefni rekstur á Vífilsstöðum, nefni útskriftardeild á Landakoti o.fl. Þetta er allt í samræmi við framlagðar óskir og sundurliðaðar og vel rökstuddar óskir spítalans.

Þar að auki er spítalinn að fá nýjungar inn í þjónustu. Þá er til dæmis sérstök styrking á geðsviði, sérstök styrking til að koma til móts við mönnun og fleiri þætti. Þannig að í raun er mun betur komið til móts við óskir spítalans á næsta ári en í fyrra með styrkingu þessa rekstrargrundvallar eins og hann liggur fyrir. Ef það kemur í ljós að þetta dugir ekki verðum við að taka á því þegar þar að kemur á árinu. En það liggur fyrir, (Forseti hringir.) þegar allar breytingar eru komnar inn, sem meiri hlutinn leggur hér til, að aukningin milli ára fyrir Landspítalann – háskólasjúkrahús er 8,2%, sem ég held að hljóti að vera einsdæmi.