148. löggjafarþing — 8. fundur,  22. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[21:02]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. samgönguráðherra fyrir svarið. Mér þætti áhugavert að heyra frá hæstv. ráðherra hvað hann sjái fyrir sér þegar ný fjármálaáætlun verður lögð fyrir hvað varðar framkvæmdahluta samgönguáætlunar. Nú kom fyrirliggjandi fjárlagafrumvarp fram fyrir rúmum tveimur vikum síðan og ég gef mér að það sé komin ákveðin vinna í gang og hafi verið unnin samhliða stjórnarmyndunarviðræðunum varðandi stóru myndina. Það væri áhugavert að heyra hvað hæstv. samgönguráðherra sér fyrir sér varðandi þróun fjárveitinga til nýframkvæmda í samgöngukerfinu. Því fer svo fjarri að það sé nokkurt samræmi milli núverandi fjárveitinga og þeirrar samgönguáætlunar sem liggur fyrir. Í hvora áttina sem það þróast held ég að á vorþingi þegar fjögurra og tólf ára samgönguáætlun koma til endurskoðunar verðum við að einhenda okkur í að það verði nær því að fari saman hljóð og mynd í þessum málum.