148. löggjafarþing — 12. fundur,  29. des. 2017.

fjáraukalög 2017.

66. mál
[17:07]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni að ég hef töluverðan áhuga á þessum freistnivanda. Ég held að um leið og tekin er ákvörðun um að opna fjárauka, ef mætti orða það sem svo, innan framkvæmdarvaldsins opnist einhvers konar flóðgátt og þá verði mjög freistandi að sturta þar inn alls kyns útgjöldum sem þægilegra er að afgreiða þar en í fjárlögum næsta árs, sér í lagi eins og yfirleitt er á tímum uppgangs, að afgangur reynist meiri en ráð var fyrir gert. Þetta er algerlega gegn anda laga um opinber fjármál, það þarf líka að sýna gott aðhald á slíkum tímum. Reglubundin upplýsingagjöf þar sem kannski á tveggja mánaða fresti væri verið að skila fjárlaganefnd þingsins skýrslum um framkvæmd fjárlaganna og hvernig einstaka fjárheimildir þróuðust myndu væntanlega stemma stigu við því vegna þess að þá væri ekki allt í einu gerbreytt staða milli októberskýrslu og svo framlags fjárauka í desember.