148. löggjafarþing — 14. fundur,  22. jan. 2018.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin framundan.

[15:41]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Mannkynið lifir á dramatískum tímum og Íslendingum ber að sýna ábyrgð á þróun jarðarinnar. Með nútímatækni og samskiptum hefur mannkynið aldrei verið nær því að vera eins og ein fjölskylda þar sem við berum öll ábyrgð hvert á öðru. Pólitískur veruleiki hinum megin á hnettinum kemur okkur við og líka fólkið sem þar býr.

Í rúm 70 ár höfum við lifað við ógn og í skugga kjarnorkusprengjunnar og gríðarleg orka hefur farið í að viðhalda ógnarjafnvægi. Við lok kalda stríðsins önduðum við léttar í nokkur ár en nú eru aftur blikur á lofti. Þá höfum við gengið svo freklega á gæði jarðar að í óefni stefnir og við höfum kannski bara nokkur ár til að snúa þróuninni við. Það væri kaldhæðnislegt og sorglegt ef þessi yfirburðadýrategund í lífríkinu yrði til þess að gera jörðina óbyggilega í staðinn fyrir að gera hana blómlega.

Hugmyndakerfi sem hafa verið keyrð áfram af valdabaráttu, tortryggni og græðgi hafa stutt ósjálfbæra nýtingu, miskunnarlausa samkeppni og um margt mjög óheilbrigð viðhorf. Þetta hefur leitt til þess að einstakir heimshlutar hafa orðið undir, lönd hafa farið halloka, stórir þjóðfélagshópar átt í vök að verjast og helmingur mannkyns, konur, beittur kerfisbundinni mismunun.

En styrjaldir, loftslagsógnin, kvennakúgun og félagsleg einangrun, eins og hæstv. forsætisráðherra nefndi áðan, eru hins vegar sjúkdómseinkenni, ekki sjálfur sjúkdómurinn. Hann heitir misskipting og gegn henni þarf að ráðast. Það er tilgangslaust að berjast sífellt gegn birtingarmyndinni ef ekkert er gert til að ráðast að orsökunum. Það er álíka árangursríkt og að reikna með því að það að klóra sér lækni hlaupabólu. Ísland verður auðvitað ekki afgerandi í þeirri baráttu en við getum og ættum að sýna gott fordæmi. Við eigum að taka afstöðu með friðsamlegum lausnum þegar nokkur er kostur, við þurfum að standa enn betur að þróunaraðstoð og virða þingsályktunartillögu frá 2011. Við þurfum að axla ríkari ábyrgð í málefnum flóttamanna og við eigum að ganga á undan með góðu fordæmi í loftslags- og jafnréttismálum. En nærtækast og árangursríkast er þó að vinna stóra sigra á heimavelli, ráðast gegn sjúkdómnum sjálfum. Það gerum við með því að auka jöfnuð og útrýma fátækt.

Mannkynið stendur frammi fyrir gríðarlegri tæknibyltingu sem mun gerbreyta þjóðfélaginu. Innan fárra ára og áratuga verður þátttaka mannsins í samfélaginu með allt öðrum hætti en við þekkjum hingað til. Með nýrri tækni skapast tækifæri til að komast aftur á réttan kjöl. Framleiðni getur aukist stórkostlega, einnig möguleikar á vistvænni framleiðslu sem eru nauðsynleg viðbrögð við loftslagsógninni. En síðast en ekki síst gæti hún nýst til að minnka bilið á milli þeirra ríku og fátæku.

Þeirri bylgju fylgja þó líka ógnir ef ekki er rétt haldið á spilunum. Það þarf ekki mikið hugmyndaflug til að átta sig á því að hægt er að framleiða enn ömurlegri vopn en áður. Valdið og auðurinn geta í framtíðinni færst á enn færri hendur, ójöfnuður aukist, sem ýtir aftur undir ófrið.

Þess vegna fagna ég boðaðri þverpólitískri nefnd um þau mál í samræmi við framlagða þingsályktunartillögu Samfylkingarinnar og fleiri flokka. En þar verður að tryggja að ágóðinn af tæknivæðingunni lendi ekki í höndum þeirra sem eiga fyrirtæki heldur hjá almenningi öllum.

Vissulega standa Íslendingar framarlega í samanburði við aðrar þjóðir á mörgum sviðum. Jafnrétti er mikið, hér ríkir friður, við búum yfir auðlindum sem gætu gert okkur kleift að byggja umhverfisvænt samfélag og fátækt er óvíða minni. Það er þó engin afsökun fyrir því að láta staðar numið. Raunar ættum við að vera í meiri færum en ella. Ísland er ríkt land og á einstöku hagvaxtarskeiði ættum við að geta gert miklu betur nú en áður. Því eru áherslur ríkisstjórnarinnar þegar kemur að veikustu hópum samfélagsins mikil vonbrigði.

Í umræðu um stefnuræðu forsætisráðherra sagði hæstv. heilbrigðisráðherra að til þess að mynda ríkisstjórn með þeim flokki sem Vinstri græn hafa gagnrýnt mest þyrfti skýra pólitíska sýn, þrek og kjark. Þau hafi þorað að taka frumkvæði og gripið tækifærið. Orðrétt sagði hún, með leyfi forseta:

„Við erum að bjarga heilbrigðiskerfinu, menntakerfinu og samgöngunum frá langvinnri vanrækslu og ásælni peningaaflanna í landinu. Það er búið að rétta efnahagslífið við eftir hrunið.“

Um leið og Samfylkingin fagnar hverri krónu sem er sett í styrkingu almannaþjónustunnar teljum við allt of lítið gert enn þá. Við erum tilbúin til að berjast með stjórninni af meiri metnaði á því sviði ef það er gert skynsamlega. Við gagnrýnum hins vegar það hættuspil að fjármagna slík útgjöld með því að klípa af rekstrarafgangi ríkissjóðs en afla ekki tekna fyrir þeim. Slíkt getur auðveldlega leitt til hærri vaxta og aukinnar verðbólgu. Undir þær áhyggjur taka bæði fjármálaráð og peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands. Við hörmum beinlínis að skattkerfið og önnur tekjujöfnunartæki séu ekki nýtt til að bæta stöðu viðkvæmustu hópanna, aldraðra, öryrkja, ungs fólks og tekjulágra.

Þá er gefinn eftir 21 milljarður í skattheimtu frá fjárlagafrumvarpi síðustu ríkisstjórnar, sem hefði mátt nýta í þessa baráttu. Loks verður fróðlegt að fylgjast með því hvað ríkisstjórnin ætlar að gera. Ætlar hún að lækka afgjald okkar almennings að sameiginlegum auðlindum og lækka veiðigjaldið?

Miðstjórn ASÍ hefur raunar ályktað og telur að núverandi stefna ríkisstjórnarinnar muni leiða til meiri misskiptingar. Varla er það gott veganesti inn í komandi kjaraviðræður. Er þetta virkilega hinn skýri pólitíski vilji Vinstri grænna nú þegar búið er að rétta efnahagslífið við, eins og hæstv. heilbrigðisráðherra orðaði það?

Herra forseti. Til þess að hafa raunveruleg tækifæri til að dafna og þroska og nýta hæfileika sína þarf fólk að búa við viðunandi kjör. Það geta ekki þau 6 þús. börn sem búa við skort, ungt fólk sem hrekst um á ótryggum íbúðamarkaði, öldruð hjón sem njóta eingöngu tekna frá almannatryggingum og fá um 250 þús. hvort eftir skatta, eða einhleypur sem fær 243 þús. eftir skatta eða öryrkinn sem fær enn þá minna en það. Þetta fólk getur ekki nýtt sér það fjölmarga sem íslenskt samfélag hefur upp á að bjóða og telst til sjálfsagðra mannréttinda í dag. Þótt það hafi kannski naumlega til hnífs og skeiðar býr það við félagslega fátækt og vaxandi hópur hefur ekki einu sinni efni á að leita sér lækninga.

Ríkisstjórnin hefur reyndar gefið í skyn að hún ætli að ræða félagslegar umbætur í tengslum við kjarasamninga. En nauðsynlegt grunnkerfi á aldrei að vera skiptimynt í kjarasamningum. Vinstri flokkur ætti að hafa meiri metnað en það. Við eigum einfaldlega ekki að braska með fæði, klæði, húsnæði eða öryggi fólks.

Eins mikilvægt og það er að ná breiðri sátt ólíkra sjónarmiða, eins og hæstv. forsætisráðherra hefur lýst stjórnarsamstarfinu, getur félagshyggjuflokkur tæplega sætt sig við að málamiðlun leiði til óbreyttrar þróunar í átt að aukinni misskiptingu.

Ríkisstjórnin birti í stjórnarsáttmálanum metnaðarfullar tillögur í loftslagsmálum en skortur á fjármögnun veldur vonbrigðum. Þá er áhyggjuefni að ekkert sé minnst á hlutverk hins byggða umhverfis í þeirri baráttu, þrátt fyrir að þangað sé kannski mest að sækja. Þar mun þétting byggðar og borgarlína höfuðborgarsvæðisins leika gríðarlega stórt hlutverk. Í ljósi málflutnings fjögurra af fimm frambjóðendum í leiðtogakjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík er nauðsynlegt að við fáum að heyra frá flokksmönnum Sjálfstæðisflokksins um stefnu hans og ríkisstjórnarinnar varðandi þá þætti.

Herra forseti. Talsmönnum ríkisstjórnarinnar varð við myndun hennar tíðrætt um að hlutverk hennar væri að efla traust og auka pólitískan stöðugleika. Traust er lykilþáttur í því að Alþingi og stjórnvöld geti risið undir skyldum sínum. Traust er þó hvorki hægt að kaupa né krefjast. Það verður fólk að ávinna sér. Eins mikilvægt og það er að forsætisráðherra skipi nefnd sem útbúi vegvísa er vísasta leiðin að stjórnvöld og kjörnir fulltrúar hagi sér þannig að það byggist upp. Reyndar væri ný stjórnarskrá ágætisskref í þá átt.

En ef einhver heldur að traust aukist með dómsmálaráðherra sem hefur verið dæmd í Hæstarétti fyrir afskipti af dómsvaldinu eða flokki sem hefur ekki náð að klára þrjú síðustu kjörtímabil sín í ríkisstjórn fer sá hinn sami villur vegar.

Herra forseti. Ríkisstjórnin hefur nú lifað sína stuttu hveitibrauðsdaga. Samfylkingin er fús til samstarfs en þá verða ríkisstjórnarflokkarnir að koma af fullri alvöru með okkur í að lengja fæðingarorlof, lækka greiðsluþátttöku, byggja fleiri leiguíbúðir og almennt að gera mikið betur í baráttunni gegn ójöfnuði og fátækt.