148. löggjafarþing — 14. fundur,  22. jan. 2018.

staðan í stjórnmálunum í byrjun árs og verkefnin framundan.

[16:03]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þingmanninum ræðuna. Það er alltaf jákvætt að eiga góða bandamenn á þingi. Hann talaði um að hann og Samfylkingin ætluðu að reynast okkur bandamenn hér á þingi.

Ég verð samt að halda áfram með umræðuna sem við áttum fyrir áramótin. Mér hefur þótt lítið úr því gert sem átti sér stað í kringum fjárlögin og síðast heyrði ég nú í útvarpinu um helgina að því máli var haldið áfram. Í ræðu hv. þingmanns kom fram að honum þætti ekki nóg að gert á þessu ári. Mig langar að spyrja hvort hann hefði viljað skera niður eitthvað af þeim verkefnum sem lagt var af stað með á þessu ári í fjárlagafrumvarpinu. Eins og komið hefur fram voru þetta rúmir 19 milljarðar sem var bætt við frá frumvarpinu sem var lagt fram í september. Það hefur líka komið fram í umræðunni að það er u.þ.b. helmingur af þeirri fjárhæð sem Samfylkingin lagði til að yrði á kjörtímabilinu. (LE: Það er …)

Ég spyr bara: Hvað finnst þingmanninum eðlileg útgjöld fyrsta kastið í fjárlögum varðandi þessa málaflokka? Er það eitthvað sem hann hefði viljað hafa öðruvísi? Er það heilsugæslan? Heilbrigðisstofnanir á landsbyggðinni? Við hækkuðum útgjöld til barnabóta sem mér hefur fundist Samfylkingin gera mjög lítið úr. Framlög til fæðingarorlofs voru hækkuð sem mér hefur fundist Samfylkingin gera lítið úr. Það er auðvitað alltaf hægt að gera betur. Við erum sammála um það. Við deilum ekki um það. En mér hefur þótt umræðan af hálfu Samfylkingarinnar, sem segist vera bandamaður okkar í mjög mörgum góðum málum, vera þannig að gera lítið úr því sem gert er. Ég spyr: Hvað telur þingmaðurinn að hefði verið eðlilegt að bæta við frá fjárlagafrumvarpinu frá því í haust í fjárlögunum sem (Forseti hringir.) voru samþykkt núna?