148. löggjafarþing — 15. fundur,  23. jan. 2018.

afleysingaferja fyrir Herjólf.

[13:56]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (Flf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. samgönguráðherra fyrir þessi svör, sem voru raunar næsta lítil vegna þess að hann virðist ekki hafa kynnt sér þetta skip. En samkvæmt upplýsingum sem ég hef þá eru engar kojur um borð í norsku ferjunni. Menn verða að bera örlitla virðingu fyrir íbúum þessa lands í samgöngumálum. Við erum að tala um þrjár vikur sem íbúar í Vestmannaeyjum eru í fjötrum og komast ekki upp á land. Það er bara þannig. Ég þekki það sjálfur að fólk sem er sjóveikt fer ekki með fjölskyldurnar, börnin eða konurnar, upp á land ef ekki eru kojur um borð í skipunum. Þetta er tæplega þriggja tíma sigling. Ég vona og óska eftir því að hæstv. samgönguráðherra kanni það og hugi að því í framtíðinni að bjóða upp á almennilega ferju til Vestmannaeyja þegar Herjólfur þarf að fara í slipp.