148. löggjafarþing — 15. fundur,  23. jan. 2018.

fjármálastefna 2018--2022.

2. mál
[17:15]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Í fyrsta lagi er það alveg rétt, það er stutt síðan fjármálastefna síðustu ríkisstjórnar var lögð fram og afgreidd í þinginu. Það hafa í sjálfu sér engar grundvallarbreytingar orðið. Áfram er gert ráð fyrir mjög sterkum og miklum hagvexti og áfram er krafa um að ríkisfjármálin séu aðhaldssöm. Meginmunurinn á þessari fjármálastefnu og hinni fyrri er að dregið er úr aðhaldi, þá sér í lagi ríkisins, þannig að gert er ráð fyrir minni hlutfallslegum afgangi. Ég held að þar skeiki 0,3–0,4%, þ.e. í stað þess að það sé 1,5% afgangur er slegið af niður í 1,2% á yfirstandandi ári, ef ég man rétt, og svo niður í 0,8% undir lok tímans, sem átti að vera 1,1 eða 1,2% í fyrri fjármálastefnu. Þannig að það er augljóslega verið að gefa í í útgjöldunum.

Það er líka umhugsunarvert að beinlínis er gert ráð fyrir því sem forsendum í fjármálastefnunni að ríkisútgjöld haldist svipuð sem hlutfall af landsframleiðslu það sem eftir er af þessu þensluskeiði. Sögulega séð hefur það alltaf verið sveiflujafnandi hlutverk ríkisfjármálanna að hlutfallstala ríkisútgjaldanna hefur heldur lækkað í uppsveiflunni einfaldlega af því að sveiflurnar eru svo öfgakenndar. Það þyrfti að auka ríkisútgjöld alveg gríðarlega mikið og með mjög ósjálfbærum hætti ef fylgja ætti þessari sveiflu. Af því hef ég áhyggjur.

Hvað vinnumarkaðinn varðar og spurningu hv. þingmanns held ég að hluti þess vanda sem við erum að glíma við á vinnumarkaði, sem er langtímavandi — í raun og veru getum við sagt að við búum í dálítið verðbólgusýktu þjóðfélagi þrátt fyrir að bent sé á að við höfum búið hér við efnahagslegan stöðugleika undanfarin fjögur ár — þá er verðbólga lág fyrst og fremst af því að gengið hefur styrkst alveg gríðarlega mikið. Það hefur verið af alveg nógu að taka í innlendri verðbólgu á þessum tíma. Að mínu viti er hluti (Forseti hringir.) ástæðunnar fyrir því að verkalýðshreyfingin virðist aldrei vera tilbúin til þess að ganga til samninga á grundvelli raunhæfra krafna í anda kollega sinna (Forseti hringir.) á hinum Norðurlöndunum sá að hún hefur ekki trú á efnahagslegum stöðugleika. Hún hefur ekki trú á lágri verðbólgu og ætlar bara að verða fyrri til.