148. löggjafarþing — 15. fundur,  23. jan. 2018.

fjármálastefna 2018--2022.

2. mál
[17:17]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka þingmanni svarið. Ef það er fyrirséð hver viðbrögð vinnumarkaðarins verða við fjármálaáætlun sem menn hafa áhyggjur af að sé þensluhvetjandi í ljósi þess að ríkisstjórnin hefur — það er ekki bara þessi fjármálastefna heldur líka yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar og stjórnarsáttmálinn þar sem notuð eru mjög sterk orð um fyrirhugaða uppbyggingu, fjárfestingu í innviðum o.s.frv. — þá veltir maður fyrir sér hvort fjármálastefnuumræðan endurspegli þann raunveruleika sem blasir við okkur á næstu mánuðum, þ.e. þær viðræður sem eiga að fara af stað. Gleymum því ekki að á sama tíma eru ekki bara launþegar úti á vinnumarkaðnum, heldur líka fyrirtækin sem þurfa að koma að málum og semja við launþegana. Þar hafa menn ekki staðið við fyrirheit um lækkun á tryggingagjaldi. Þvert á móti (Forseti hringir.) er í raun verið að hækka ákveðna skatta sem lenda á fyrirtækjum eins og kolefnisskattar og eitthvað annað. Hefur það ekki áhrif?