148. löggjafarþing — 16. fundur,  24. jan. 2018.

skilyrðislaus grunnframfærsla.

9. mál
[17:32]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég er alveg sammála hv. þingmanni um að þetta sé hlutur sem við þurfum að sjást fyrir í. Við þurfum að skoða vandlega hvaða afleiðingar þær miklu og hröðu breytingar hafa sem spáð er. Ég trúi að þær spár ýki stöðuna ekki mikið. Ég held t.d. að það sé alveg ljóst að í svona hröðum breytingum í atvinnulífi sem byggir á þekkingarbyltingu þurfi að leggja mjög mikla áherslu á menntakerfið og ekki hvað síst símenntun. Við megum vænta þess sjálf og börnin okkar að starfsbreytingar okkar verði mun örari en þekkst hefur hingað til. Við þurfum að tileinka okkur símenntun og afla nýrrar þekkingar alla starfsævina á enda. Menntun okkar linnir aldrei í þessu umhverfi.

Það sem ég velti hins vegar fyrir mér í þessu samhengi og spyr þingmann er hvort hún hafi ekki áhyggjur af því þegar við verðum komin með hugsun um skilyrðislausa grunnframleiðslu. Ég er mikill stuðningsmaður þess að við séum með öryggisnet í samfélaginu, að við grípum t.d. þá sem detta út af vinnumarkaði tímabundið í gegnum atvinnuleysistryggingakerfið. En auðvitað er sterkasti drifkrafturinn í okkur öllum einhvers konar sjálfsbjargarviðleitni. Við sáum þegar við fórum í gegnum efnahagshamfarir nýlega, ef má lýsa þeim þannig, þá varð alveg gríðarleg aukning í nýsköpun og þróun og sköpun nýrra starfa þar sem hæft fólk sem misst hafði vinnuna fór og skapaði sér eitthvað. Þess vegna velti ég fyrir mér: Óttast hv. þingmaður ekki að skilyrðislaus grunnframfærsla sem þessi dragi úr þeim krafti nýsköpunar, sjálfsbjargarviðleitni, ef við viljum kalla það svo, að hún veiki slíka viðleitni hjá fólki?