148. löggjafarþing — 17. fundur,  25. jan. 2018.

frumvörp um tjáningar- og upplýsingafrelsi.

[10:42]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Ég er reyndar svolítið ósammála því að þarna sé sérstaklega framsýn hugsun á ferðinni. Ég vil sjálfur yfirleitt ganga lengra en flestir kollegar mínir þegar kemur að tjáningar- og upplýsingafrelsi, það er staða sem er mér hulin ráðgáta hvernig í ósköpunum standi á. En það er önnur saga.

Staða einkarekinna fjölmiðla er góð og blessuð og ég get alveg tekið undir að það varði efnið. Hins vegar hefur legið fyrir ansi lengi að til stæði að gera þetta. Nú er 2018, þingsályktunin er samþykkt 2010. Hæstv. ráðherra segir að verið sé að skoða hvað megi nýta úr þessum frumvörpum og því verð ég að spyrja: Er eitthvað sem stendur í vegi fyrir því? Hyggst ráðherrann leggja fram þessi frumvörp á næsta þingi eða þarnæsta eða þarþarnæsta? Á kjörtímabilinu yfir höfuð? Er einhver andstaða við það af einhverjum ástæðum innan ráðuneytisins eða úr öðrum áttum sem tefur fyrir málinu? Ég spyr vegna þess að ég fæ ekki betur séð en að frumvörpin séu tilbúin til umræðu á Alþingi með greinargerð og öllum pakkanum og átta mig ekki alveg á hvað hindrar framlagningu þeirra í dag, hvað þá á kjörtímabilinu.