148. löggjafarþing — 26. fundur,  20. feb. 2018.

störf þingsins.

[13:54]
Horfa

Una Hildardóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil skora á þingmenn og þingheim að samþykkja frumvarp um breytingu á lögum um kosningar til sveitarstjórna sem fyrst svo 16–17 ára ungmenni hljóti kosningarétt í komandi sveitarstjórnarkosningum. Lækkun kosningaaldurs styrkir lýðræðið og er eðlileg lýðræðisþróun. Breytingin er raunveruleg innleiðing barnasáttmálans sem á að tryggja borgaraleg réttindi barna. Aldurshópurinn 16–17 ára ber nú þegar ábyrgð og gefur af sér til samfélagsins. Þau eru sakhæf, þau greiða tekjuskatt og hafa lokið sinni skólaskyldu. Við þessa lagabreytingu aukum við kosningaþátttöku með fjölgun ungra kjósenda og tryggjum sanngjarnari aldursbreidd. Ákvarðanir sem teknar eru í dag hafa mest áhrif á þau sem yngst eru. Sú staðreynd krefst þess að ungt fólk hafi beina aðkomu að ákvarðanatöku og raunverulegt vald.

Þegar aldurshópnum 16–17 ára er færður kosningaréttur aukast líkurnar á því að ungt fólk nái kjöri. Í síðustu alþingiskosningum náði aðeins einn þingmaður undir þrítugt kjöri, en ungt fólk er líklegra til þess að kjósa ungt fólk. Það þarf sína fulltrúa á þingi og í sveitarstjórnum. Ef lýðræðið á að þrífast með komandi kynslóðum er það ofboðslega mikilvægt.

Virðulegi forseti. Ef ungt fólk kýs ekki í sínum fyrstu kosningum eftir að kosningaaldri er náð er það ólíklegra til þess að kjósa í framtíðinni. Við vitum að upplýsingaherferðir og skuggakosningar hafa jákvæð áhrif á kjörsókn. #Égkýs lýðræðisverkefnið styður við slíkar niðurstöður. Þeir sem kusu í skuggakosningunum voru líklegir til þess að kjósa í alþingiskosningum. Þátttaka yngstu kjósendanna jókst mest á milli kosninga 2016 og 2017 um 9,5 prósentustig.

Hér liggja sóknarfærin. Ég biðla til stjórnvalda að styðja við slík verkefni og tryggja 16–17 ára ungmennum kosningarétt í vor. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)