148. löggjafarþing — 26. fundur,  20. feb. 2018.

helgidagafriður.

134. mál
[18:26]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Forseti. Ég tók það skýrt fram í ræðu minni, taldi ég, að ég teldi það hið besta mál að taka út úr lögum um helgidagafrið ákvæði um að bannað væri að spila bingó. Ég viðurkenni hins vegar að mér hugnast ekki að leggja niður heila lagabálka ef ég er ekki algjörlega viss um að það sem er gert sé til bóta. Ef ég er viss um að það sé til bóta þá er ég með út af fyrir sig.

Það er eitt atriði sem við erum að gleyma í þessari umræðu, þegar við komum að þessu um helgidagafriðinn, það er tilvist þjóðkirkjunnar og stuðningur við hana í stjórnarskrá Íslands. Menn geta verið súrir yfir því eða ekki súrir, menn geta verið kátir yfir því. En það vill þannig til að þjóðin sagði sjálf, þegar hún var spurð síðast: Jú, ég vil að þjóðkirkja sé á Íslandi. Sjálfur hefði ég ekkert á móti því að hér yrði aðskilnaður ríkis og kirkju, eins og er í raun í stórum dráttum. Málið er hins vegar það að íslenska ríkið hefði ekki efni á því, það er bara svo einfalt. Ef skila ætti til kirkjunnar öllum hennar eignum yrði ríkissjóður illa haldinn, held ég. Af praktískum ástæðum tel ég að núverandi ástand sé að því leyti til betra.

Það er ein ríkisstofnun sem við getum ekki sagt okkur úr og getum ekki yfirgefið nema dauða, það er RÚV. Við getum alveg tekið þann debatt út af fyrir sig. En ég segi samt: Ég óttast það mjög, eins og núverandi ástand er á vinnumarkaði, að ef við myndum kippa þessu í burtu yrði farið að sælast í það að fækka rauðum dögum, svo að ég tali bara íslensku. Ég óttast það mjög. Ég segi aftur: Þetta bitnar á þeim sem hafa lægst laun og standa erfiðast að vígi á vinnumarkaði.