148. löggjafarþing — 27. fundur,  21. feb. 2018.

löggæslumál.

[16:14]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Herra forseti. Í umræðu um löggæslu verður ekki hjá því komist að minnast á gagnsæi um störf lögreglu og þær reglur sem henni ber að vinna eftir í störfum sínum. Sömuleiðis er mikilvægt að um störf lögreglu gildi skýrar reglur sem farið er eftir og viðurlög séu við sé þeim ekki fylgt.

Á opnum fundi lögregluyfirvalda og dómsmálaráðherra með allsherjar- og menntamálanefnd á dögunum um vörslu sönnunargagna hjá lögreglu kom fram að margar þær reglur sem lögreglan fylgir og varða vörslu sönnunargagna eru ekki aðgengilegar almenningi. Hvorki lögregla né ráðherra settu sig þó upp á móti því að þessar reglur yrðu birtar og vil ég því nota tækifærið til að hvetja ráðherra til að birta þessar reglur sem og allar aðrar sem gilda um störf lögreglu sem fyrst í nafni aukins gagnsæis.

Í öðru lagi vil ég minna á sjálfstætt eftirlit með störfum lögreglu. Þegar lögregla er fjársvelt í fleiri ár aukast líkur á mistökum og brotum á ferlum og reglum, einfaldlega vegna ómannlegs álags. Þá er mikilvægt að sjálfstætt eftirlit með störfum lögreglu sé hafið yfir allan vafa.

Á vef nefndar um eftirlit með störfum lögreglu er mikill upplýsingaskortur og enginn ársskýrsla eins og reglur um nefndina segja til um að eigi að vera. Það væri tilvalið fyrir ráðherra að ýta á eftir upplýsingagjöf um þessa nefnd svo við fáum betur skilið hvort hún geti yfir höfuð veitt lögreglu virkt og sjálfstætt aðhald.

Í þessu samhengi vil ég minna á minnisblað sem allsherjar- og menntamálanefnd sendi dómsmálaráðuneytinu 15. febrúar sl. þar sem óskað var viðbragða ráðherra gagnvart alvarlegum afglöpum lögreglu á dögunum þegar í ljós kom að lögregla vanrækti kæru um kynferðisbrot gegn barni sem lögð var fram á hendur starfsmanns Barnaverndar.

Nú hefur mér borist til eyrna að ráðuneytið hyggist ekki bregðast við þessari ósk fyrr en í næstu viku. Því vil ég minna ráðherra á lög um þingsköp Alþingis sem skylda ráðuneytin til að bregðast við svo fljótt sem verða má en ekki seinna en viku eftir að beiðni berst. Þetta eru ekki leiðbeinandi reglur, ekki matskennd regla stjórnsýsluréttarins, þetta eru lögin í landinu.