148. löggjafarþing — 27. fundur,  21. feb. 2018.

löggæslumál.

[16:18]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (Flf):

Virðulegi forseti. Já, það hafa sannarlega mörg ný verkefni komið á borð lögreglu undanfarin ár. Samanburður er allur erfiður. Það eru miklu fleiri ferðamenn, miklu fleiri íbúar í landinu, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu, lögreglan er önnum kafin við að fylgja hælisleitendum úr landi og það eru ýmis verkefni sem kalla á fleiri lögreglumenn. Þess vegna erum við nú að rifja upp hve margir lögreglumenn hafa verið og eru nú við störf.

Við getum líka farið lengra aftur, kannski tvo áratugi. Árið 1999 voru starfandi 317 lögreglumenn á höfuðborgarsvæðinu, þar af 64 í Kópavogi og Hafnarfirði. Þá taldi lögreglustjórinn í Reykjavík þurfa 303 í Reykjavík einni til að halda uppi æskilegri þjónustu við borgarbúa eins og hann orðaði það. Nú, nær tveimur áratugum síðar, en nýjustu tölur eru frá 1. febrúar 2016, er heildarfjöldi lögreglumanna á öllu höfuðborgarsvæðinu 290 eða færri en næstum 20 árum fyrr þrátt fyrir að íbúum hafi fjölgað stórkostlega á svæðinu, eða um 50 þúsund, svo ekki sé minnst á tölur yfir erlenda ferðamenn sem hafa fjölfaldast á sama tíma.

Ef sameining embætta hefur tekist vel, eins og hæstv. ráðherra orðaði það, spyr ég bara: Á hvaða mælikvarða? Fækkun lögreglumanna?

Í skýrslu sem þáverandi dómsmálaráðherra lét gera og nefndist Staða lögreglunnar og lögð var fyrir þingið í desember 2012 kemur fram á bls 8, með leyfi forseta:

„Frá árinu 2008 til ársins 2011 hafa fjárveitingar til lögregluembætta miðað við vísitölu september 2012 lækkað um 2,8 milljarða króna. Embætti sérstaks saksóknara er ekki hér meðtalið.“

Hvernig er staðan í dag? Hæstv. ráðherra talaði um aukningu upp á 2 milljarða. Gott og vel. Það er ágætisbyrjun.

Hvað er ég að segja? Einfaldlega að það stoðar lítt að tala um eflingu innviða ef efndirnar eru svo engar og vil ég hvetja hæstv. ráðherra til að vinna með okkur í Flokki fólksins til að efla og auka veg lögreglunnar í landinu.