148. löggjafarþing — 27. fundur,  21. feb. 2018.

mál frá ríkisstjórninni.

[18:02]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Ég veit eiginlega ekki í gegnum hvaða hreinsunareld stjórnarþingmenn hafa gengið sem töluðu mest um fúsk á síðasta kjörtímabili ef það orð er allt í einu á bannlista, en samt hefur ástandið í rauninni versnað frá því í fyrra.

Þar sem ég þekki það fólk sem situr í ráðherrastólum ekkert af öðru en dugnaði, þá óttast ég að það sé nefnilega einhver farsi hérna í gangi, eins og hv. þm. Oddný Harðardóttir talaði um, að flokkarnir komi sér ekki saman um hvað á að gera. Það er ekki bara farsi, það er líka venjulegt leikrit, vegna þess að sum mál mega ekki koma fyrir augu almennings fyrr en eftir sveitarstjórnarkosningar vegna þess að það getur verið óþægilegt að útskýra það fyrir fólki að öll stóru orðin um að efna ætti samgönguáætlun voru nefnilega bara plat.

Hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir kom hér áðan upp og segir í ræðu að mjög brýnt sé að hún komi fram og drífa eigi í því, (Forseti hringir.) en kemur svo í seinna andsvari og talar um að það liggi nú samt ekkert á, það verði að vanda sig.

Nei, þetta er fúsk. Þetta er skrípaleikur og þetta er leikrit.