148. löggjafarþing — 27. fundur,  21. feb. 2018.

mál frá ríkisstjórninni.

[18:12]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Við höfum einmitt andað djúpt, beðið og séð til núna í 90 daga. Oft er talað um það í pólitík að fyrstu 100 dagar ríkisstjórnar slái tóninn fyrir það sem koma skal. Ég veit ekki hvað á að breytast á næstu 10 dögum, en ég er til í að anda djúpt, bíða og sjá til.

Í þessari umræðu held ég að við getum alla vega sammælst um, og það hefur verið ánægjulegt að heyra frá hv. þingmönnum stjórnarmeirihlutans, að við þurfum svolítið að skoða manngæskuhliðina. Við vinnum oft lengi, það er oft mikil streita, hér er barnafólk sem þarf sinn tíma. Það þarf gott skipulag. Við höfum oft kvartað undan skorti á því. Það er oft lítið sem er snemma á hverju þingi, og margt sem er seint. Það er ekki nógu gott. Við þurfum fyrst og fremst að fara að bera almennilega virðingu fyrir ferlunum hér, fyrir fólkinu sem starfar hérna og fyrir hlutverki okkar sem þjóðþings (Forseti hringir.) í því að gera hlutina vel, gera hlutina vandlega og vinna þá jafnt og þétt. Um það ættum við að geta sammælst.