148. löggjafarþing — 28. fundur,  22. feb. 2018.

sveitarstjórnarlög.

190. mál
[14:41]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hv. forseti. Ég ætla ekki að lengja umræðuna mikið. Ég tel hins vegar nauðsynlegt að geta þess að þegar þau lagaákvæði sem hér er gerð tillaga um að breyta komu fyrir þingið á sínum tíma var það ekki óumdeilt og ekki í samkomulagi.

Ég held að allir þingmenn Sjálfstæðisflokksins, þar með talið ég sjálfur, sem tóku þátt í þeirri atkvæðagreiðslu hafi greitt atkvæði gegn þessu ákvæði, þó að við styddum frumvarpið í heild. Þetta var partur af mjög stóru frumvarpi um breytingar á sveitarstjórnarlögum sem samkomulag var um. En gerðar voru athugasemdir við nákvæmlega þennan þátt. Breytingin, eins og hún blasti við okkur, hafði á þeim tíma eingöngu áhrif á Reykjavík, þ.e. breytingin sem gerð var á lögunum á þessum tíma, 2011, hafði eingöngu þau áhrif að leggja þá skyldu á herðar Reykjavíkurborg að fjölga borgarfulltrúum úr 15 í að lágmarki 23. Við lögðumst gegn því með þeim rökum að rétt væri að borgarstjórn Reykjavíkur tæki ákvörðun um það sjálf. Að þingið væri ekki að knýja borgina til þess að fjölga borgarfulltrúum.

Svipuð sjónarmið hafa komið fram í borgarstjórn Reykjavíkur þannig að ekki er alveg rétt að sú niðurstaða sem nú er í lögum hafi alla tíð og alltaf verið í einhverju fullkomnu samkomulagi allra aðila. Þetta hefur verið umdeilt mál, ég vildi bara halda því til haga í þessari umræðu. Þess vegna þarf það ekki að koma neinum á óvart þó að hv. þm. Jón Gunnarsson og fleiri þingmenn úr ýmsum flokkum flytji þessa tillögu núna. Hún felur ekki í sér skyldur á hendur borgarstjórn Reykjavíkur eða öðrum sveitarstjórnum að fækka borgarfulltrúum eða bæjarfulltrúum. Hún felur það bara í sér að borgarstjórn eða bæjarstjórnir taki slíkar ákvarðanir sjálfar og þingið knýi ekki neinn til neins.