148. löggjafarþing — 29. fundur,  26. feb. 2018.

lestrarvandi og aðgerðir til að sporna gegn honum.

[16:32]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Herra forseti. Þetta er gríðarlega mikilvæg umræða sem við eigum hér um lestur og læsi og erfitt að gera svona stóru og mikilvægu máli skil á tveimur mínútum. Ég ætla samt að reyna.

Lestur og læsi er mikilvægt og tekur til svo margra þátta. Það hefur kristallast í þeim ræðum sem hafa verið fluttar hingað til í umræðunni, bæði af hv. þm. Guðmundi Andra Thorssyni sem hóf máls á þessu sem og í máli hæstv. ráðherra og allra annarra sem hér hafa talað. Allt sem sagt hefur verið tel ég að skipti máli á einhvern hátt í hinu stóra samhengi.

Það er þrennt sem mig langar að leggja megináherslu á í máli mínu. Það er staðan almennt, eða sú slæma breyting sem hefur orðið sem sýnir að íslenskir nemendur hafa verið að gefa eftir. Breyting sem hefur orðið til hins verra. Svo finnst mér ekki annað hægt en að nefna stöðu nemenda sem hafa íslensku að öðru tungumáli. Hún er slæm. Og hún fer versnandi. Getu þeirra nemenda hrakar hraðar en getu annarra. Þetta er sjálfstætt samfélagsvandamál sem við stöndum frammi fyrir og verðum að taka á. Svo í þriðja lagi það sem hefur verið að koma fram, þ.e. ólík staða nemenda eftir skólum og þar með hverfum þar sem virðist vera að koma í ljós stéttaskipting til náms eftir búsetu. Það er annað risastórt samfélagslegt vandamál sem við sem hér störfum þurfum að láta (Forseti hringir.) okkur varða.

Það þarf að taka á læsismálunum almennt og efla menntakerfið og efla kennarana, en við þurfum líka (Forseti hringir.) að taka á þeim sértæku málum sem lúta að stéttaskiptingu í íslensku samfélagi.