148. löggjafarþing — 29. fundur,  26. feb. 2018.

lestrarvandi og aðgerðir til að sporna gegn honum.

[16:47]
Horfa

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Menntakerfi sem skilar ekki fólki sem getur lesið sér til gagns er ekki eitthvað sem við ætlum að sætta okkur við. Við höfum hafist handa. Þjóðarsáttmálinn sem var settur af stað 2015 er ekki átak heldur langtímaverkefni með breytingum á kerfinu til lengri tíma. Það tekur nefnilega talsverðan tíma að bæta verulega úr stöðunni en um er að ræða kannski fjögur meginatriði fyrst og fremst.

Í fyrsta lagi var hafist handa við mælingar á lesgetu sem nauðsynlegar eru til að fylgja eftir verkefninu og fylgjast náið með árangri. Umræða um menntamál má nefnilega ekki vera í upphrópunum þegar kannanir sýna lélegan árangur heldur eigum við ávallt að vera að ræða bætingar, framfarir og áskoranir í málaflokknum.

Í öðru lagi er það samkomulag Heimilis og skóla til að tryggja þátttöku foreldra. Eins og fram hefur komið hér fer kennsla fram í skólum en svo er það æfingin heima sem er lykilatriði. Það er fylgni á milli lesfimi og lesskilnings eins og gefur augaleið. Ef barn á erfitt með tæknina að lesa á það einnig erfitt með að skilja hvað stendur. Æfingin skapar meistarann.

Í þriðja lagi er það ráðgjafaraðstoð fyrir skóla og kennara sem stendur til boða og margir hafa nýtt sér. Það byggir ekki á að kenna eigi lestur eftir einni ákveðinni aðferð heldur stuðningi við skólana um læsi og lestrarnám.

Í fjórða lagi er síðan samstarf við sveitarfélög þar sem gerð er áætlun um hvernig lestraráhugi barna verði best aukinn og um eftirfylgni, hvernig tryggt verði að ná markmiðum um læsi og lesskilning.

Þingið setti mikla fjármuni í verkefnið. Fyrstu vísbendingar um árangur eru ágætar. Þó er eins og fyrr segir ómögulegt að segja til um það strax.

Ég bind miklar vonir við að hér náum við árangri. Markmiðið er að þjóðarsáttmáli um læsi festist í sessi og verði hluti af almennu skólastarfi til framtíðar. Við þurfum að horfa til framtíðar. Hér hefur farið fram virkilega góð umræða. Ég fagna því verulega að þetta haldi áfram í forgangi hjá hæstv. ráðherra.