148. löggjafarþing — 32. fundur,  1. mars 2018.

almenn hegningarlög.

114. mál
[14:33]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þegar ég skoða þessi mál reyni ég að gera það svolítið eins kalt og ég get út frá grundvallarhugmyndum um réttindi fólks, vegna þess að okkur hættir svolítið til þegar við erum að ræða réttindi fólks að ætla okkur sjálfum hlutverk þess hvers réttindi við erum að fjalla um. Dæmi: Myndi ég vilja geta keyrt leigubíl án leyfis? Myndi ég vilja geta reykt hass úti á götu? Myndi ég vilja hitt eða þetta? Það er ekki endilega aðalatriðið hvað ég myndi vilja eða hvað mér finnst persónulega um þessa aðgerð. Það sem skiptir aðallega máli er hvað einstaklingnum sem verður fyrir verknaðinum finnst um það. Átta daga gamall einstaklingur og jafnvel miklu eldri en það getur ekki tekið þetta upplýsta val, samanber það að við bönnum börnum að taka ákvarðanir um kynhegðun sína sem dæmi.

Ég lít á þetta einfaldlega út frá réttindum barnsins óháð þeim tilfinningum sem ég hef gagnvart verknaðinum sjálfum. Mér finnst skýrt að þetta er brot á réttindum barnsins og meginástæðan fyrir því að við getum hugsanlega sætt okkur við það er bara vegna hópþrýstings þar sem samfélagið heimtar að við sættum okkur við þetta.