148. löggjafarþing — 32. fundur,  1. mars 2018.

almenn hegningarlög.

114. mál
[16:46]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka ræðumanni fyrir ræðuna og þessa umræðu.

Við ræðum frumvarp um breytingu á almennum hegningarlögum og förum út um víðan völl, að sjálfsögðu, þetta er stórt mál. Ég hef verið að velta fyrir mér hvaða afstöðu ég tek til frumvarpsins. Ég ber mikla virðingu fyrir trú og hinu forna og því sem fólk ber virðingu fyrir sjálft, ég ber virðingu fyrir virðingu annarra. Mikið er vitnað í gyðingdóm og þar sem þetta er gert við unga drengi, að umskera þá. Ég veit ekki hvort ég ber virðingu fyrir þeim atburði. Það er mikið inngrip í líf ungra barna.

Ég er á móti því að ungbörn séu umskorin af þessum ástæðum. En mér finnst þetta vera það stórt mál, mér finnst þetta frumvarp vera mjög bratt, það er hegning upp á allt að sex árum. Hvað verður þá um það fólk sem vill láta umskera börnin sín? Fer það þá ekki bara inn í einhverja bílskúra eða afkima og lætur gera þetta á ósamþykktum stöðum með alls konar afleiðingum? Mig langar að spyrja þingmanninn út í þennan vinkil á frumvarpinu. Og kannski líka: Ég var ekki alveg með það á hreinu í ræðunni hvaða skoðun þingmaður hefur (Forseti hringir.) á þessu frumvarpi per se.