148. löggjafarþing — 33. fundur,  5. mars 2018.

sjúkraflutningar.

237. mál
[17:03]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurningarnar sem lúta að sjúkraflutningamálum. Ég held að þessi málaflokkur sé tilefni í sérstaka umræðu. Þó að það sé kannski ekki alveg eftir bókinni að ég óski eftir sérstakri umræðu við hv. þingmann þá væri kannski gott að við ættum slíkt samtal.

Hv. þingmaður spyr fyrst um það hvort til standi að ganga til samninga við Rauða kross Íslands, sem hefur verið samningslaus eins og kemur fram í fyrirspurn hv. þingmanns. Því er til að svara að að undanförnu hefur verið unnið að því að koma á samningi við Rauða krossinn á Íslandi um útvegun og rekstur bifreiða og tækjabúnaðar til sjúkraflutninga. Miklu máli skiptir að sú vinna klárist eins hratt og mögulegt er. Það er mín von að sú vinna fari fram í góðu samráði við Rauða krossinn.

Í öðru lagi spyr hv. þingmaður um það hvort sú sem hér stendur hafi í hyggju að semja við Rauða kross Íslands og þá til hve langs tíma verði samið. Því er til að svara að stefnt er að þriggja ára samningi við Rauða krossinn og vonast ég til þess að sátt náist fljótlega um gerð slíks samnings. Að þeim tíma loknum mun ráðuneytið taka við verkefninu. Ég tel nauðsynlegt að færa verkefnið til ráðuneytisins svo að við höfum óbundnar hendur við að móta framkvæmd sjúkraflutninga til framtíðar í samræmi við stefnumörkun sem sett hefur verið fram, auk þess sem það er mín eindregna afstaða, og ég held að við séum öll sammála um það, að öflugir sjúkraflutningar eru hluti af heilbrigðiskerfinu.

Í þriðja lagi spyr hv. þingmaður hvort nýir samningar muni fela í sér áherslubreytingar, svo sem fjölgun eða fækkun sjúkrabifreiða og breytingar á staðsetningu þeirra á landsbyggðinni. Mitt svar er það að við samningsgerð hefur verið lögð áhersla á að styrkja sjúkrabílaflotann eins og kostur er. Við ákvarðanir um kaup sjúkrabíla og búnaðar í nýjum samningi er meðal annars byggt á ráðgjöf frá fagráði í sjúkraflutningum og sjónarmiðum sjúkraflutningaaðila. Í kröfulýsingu við samningsdrög, sem nú liggja fyrir, er miðað við að fjölga sjúkrabílum umtalsvert og að auka hlutfall stórra bíla, en sjúkraflutningsaðilar lögðu mikla áherslu á að auka hlut stórra bíla. Þá er stefnt að því að keyptur verði í tilraunaskyni sjúkrabíll með svokölluðum yfirbyggðum kassa sem er stærri sjúkrabíll sem er útbúinn til að sinna flóknari sjúkratilfellum en almennir sjúkrabílar, en sjúkraflutningsaðilar á höfuðborgarsvæðinu lögðu áherslu á að bæta slíkum bíl í flotann. Einnig er stefnt að eflingu tækjabúnaðar í bílunum til að auka öryggi sjúklinga og auðvelda störf sjúkraflutningamanna. Varðandi staðsetningu bíla skal tekið fram að kröfulýsing tiltekur fjölda bíla á hverju landsvæði en ekki staðsetningu bíla að öðru leyti. Af því leiðir að mögulegt er að færa bíla til innan svæða eins og best er talið þjóna þörfum hvers svæðis á hverjum tíma.

Hv. þingmaður spyr einnig um það hvernig skipulag sjúkraflutninga horfi til langs tíma við þeirri sem hér stendur. Því er til að svara að að því er stefnt að hefja sem fyrst vinnu við að móta heildstæða stefnu í sjúkraflutningum til framtíðar, en yfir stendur sérstök stefnumótun hvað varðar sjúkraflugið. Sjúkraflutningar eru ein af meginstoðum heilbrigðiskerfisins og oft fyrsti snertipunktur við það. Stefnt er að því að komið verði á sjúkraflutningum sem tryggi öllum landsmönnum tímanlegt viðbragð á vettvangi, veitt af vel þjálfuðum fagaðilum og aðgengi að bestu heilbrigðisþjónustu innan skilgreindra tímamarka.

Nú þegar er fyrirkomulag sjúkraflugs í skoðun innan ráðuneytisins eins og fram hefur komið. Þegar niðurstaða liggur fyrir hvað sjúkraflugið varðar verður ráðist í vinnu við stefnumótun vegna sjúkraflutninga almennt. Það er hægt að gleðja þingheim með því að starfshópur um sjúkraflug mun skila niðurstöðum um miðjan mars, þannig að það er alveg á næstu dögum.

Loks spyr hv. þingmaður hvort allir þættir þessarar þjónustu hafi verið metnir, bæði þeir sem lúta að gæðum þjónustunnar og kostnaði við rekstur, viðhald og þróun. Við þessari spurningu er svarið það að ekki hefur farið fram formlegt mat á þáttum sem spurt er um vegna samnings við Rauða krossinn, um útvegun og rekstur sjúkrabíla, en við samningsgerð um kaup á sjúkrabílum og búnaði er leitast við að tryggja gæði og gott verð eins og kostur er. Bílarnir eru til að mynda alltaf keyptir á grundvelli útboða og í samræmi við alþjóðlega staðla.

Virðulegur forseti. Ég vona að mér hafi lánast að svara spurningum hv. þingmanns um þennan málaflokk. Hann fylgir væntanlega einhverjum af spurningum eftir hér í seinni spurningu.