148. löggjafarþing — 33. fundur,  5. mars 2018.

stuðningur við Fjölskyldumiðstöð Rauða krossins.

223. mál
[17:55]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni þessa fyrirspurn. Ég hef leitast við að kafa ofan í þetta mál. Fréttin sem hv. þingmaður vísaði til, er, ef mér misheyrðist ekki, frá því um áramótin 2016/2017. Það má í raun segja að þetta sé ekki neitt sem er að gerast núna heldur var þetta þegar orðið þegar sá sem hér stendur tók sæti í ríkisstjórn og við ráðuneyti félags- og jafnréttismála.

Mig langar aðeins í upphafi að fara yfir sögu Fjölskyldumiðstöðvar Reykjavíkurdeildar Rauða kross Íslands. Hún var sett á fót árið 1997 og starfaði samfellt í um 20 ár, eða til ársbyrjunar 2017. Miðstöðin, sem var ráðgjafarmiðstöð fyrir fjölskyldur, einkum barnafjölskyldur, var upphaflega samstarfsverkefni Reykjavíkurdeildar Rauða kross Íslands, Reykjavíkurborgar, félags- og tryggingamálaráðuneytisins og heilbrigðisráðuneytisins. Verkefninu var ætlað að samhæfa opinbera aðila sem lögum samkvæmt skulu bregðast við ef börn eru í vanda vegna vímuefnaneyslu og erfiðra samskipta í foreldrahúsum. Í upphafi var unnið að þessum markmiðum í nánu samstarfi við grunnskóla, heilsugæslu, barnavernd, þjónustumiðstöð Reykjavíkurborgar og á seinni stigum leituðu framhaldsskólar og aðrar stofnanir einnig eftir þjónustu hjá Fjölskyldumiðstöð.

Um nokkurra ára skeið varð hlé á því að ríkið styrkti Fjölskyldumiðstöð en félagsmálaráðuneytið kom aftur að rekstrinum árið 2009. Hin síðari ár var ábyrgð á rekstrinum alfarið á hendi Reykjavíkurdeildar Rauða kross Íslands, en Reykjavíkurborg og velferðarráðuneytið veittu Fjölskyldumiðstöð fjárhagslegan stuðning síðustu árin. Velferðarráðuneytið styrkti reksturinn með 5 milljóna kr. framlagi árin 2012–2016. Reykjavíkurborg kom einnig að rekstrinum á tímabilinu og Reykjavíkurdeild Rauða kross Íslands greiddi það sem upp á vantaði.

Það sem ég hef komist næst varðandi þetta mál er að ekki kom styrkur á árinu 2017 og að það hafi ekki verið frumkvæði ríkisins að loka Fjölskyldumiðstöð. Ríkið var reiðubúið til að halda áfram óbreyttum stuðningi við þessa starfsemi en Reykjavíkurdeild Rauða kross Íslands tók þá ákvörðun að ekki væri grundvöllur til að halda starfseminni áfram og úr varð að þjónustan var lögð niður.

Að lokum skal minnt á áherslur í fjármálaáætlun til næstu fimm ára þar sem kveðið er á um mikilvægi þess að styrkja grunnþjónustu ásamt því að efla forvarnir og snemmtæka íhlutun. Ég verð að segja að þessi snemmtæka íhlutun í þágu barna er gríðarlega mikilvæg. Ég segi það bara segi hreint út að þetta er eitt aðaláhersluatriði mitt í félags- og jafnréttismálaráðuneytinu, þ.e. að byggja upp snemmtæka íhlutun í þágu barna. Þetta verkefni er klárlega eitt þeirra. Þar erum við að fara að setja í gang vinnu sem miðar að því að kortleggja með hvaða hætti hægt sé að grípa fyrr inn á fleiri stigum og hvaða kerfisbreytingu þurfi til þess að ná saman ólíkum aðilum og grípa inn í með ólíkum aðgerðum.

Þarna hafa margar gagnreyndar aðferðir virkað í mörgum nágrannalanda okkar. En það sem vantar er umgjörðin í kringum það, hvernig við byggjum upp þessa snemmtæku íhlutun, hvernig við fáum hina ólíku málaflokka; heilbrigðismálin, menntamálin, sveitarstjórnarmálin og svo grunnskólana til að vinna saman að því að geta myndað net fyrir þessi börn þannig að velferðarkerfi okkar grípi þau fyrr. Ég er alveg sannfærður um að það er gríðarlega mikilvægt að við gerum það.

Mjög mörg félagasamtök veita ýmis úrræði og þjónustu til barna, þau skipta tugum. Þau veita ýmsa þjónustu og úrræði til barna og barnafjölskyldna með margvíslegum hætti. Það finnst mér gefa tilefni til að draga þá ályktun að þessi samtök verði til vegna þess að það er glufa í velferðarkerfi okkar. Ég held að það sé m.a. vegna þess að þessi mál tengjast inn á mörg ráðuneyti, líka inn á sveitarstjórnarstigið, og einhverra hluta vegna höfum við ekki náð að brúa bilið þarna á milli.

Þá vinnu erum við að setja af stað. Ég hef mikinn metnað fyrir því að hún geti gengið. En að þessu verkefni verða að koma fjölmargir aðilar því að blessuð börnin skynja það ekki þegar þau þurfa hjálp hvort þetta snýst um menntamálaráðuneytið, heilbrigðisráðuneytið, grunnskóla hjá (Forseti hringir.) sveitarfélögum eða félagsmálaráðuneytið, svo dæmi sé tekið.

Mér finnst fyrirspurnin gríðarlega góð og ég reyndi að svara henni eftir bestu getu.