148. löggjafarþing — 33. fundur,  5. mars 2018.

stuðningur við Samtök umgengnisforeldra.

224. mál
[18:08]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni einnig fyrir þessa fyrirspurn. Þessi málstaður er mikilvægur rétt eins og hv. þingmaður rakti hér í ágætisframsögu. Samtök umgengnisforeldra sóttu um styrk af safnliðum fjárlaga árið 2018. Þessir styrkir hafa verið veittir um nokkurra ára skeið, þeir eru veittir til félagasamtaka vegna verkefna á sviði félagsmála rétt eins og við ræddum í fyrri fyrirspurn. Árlega sækja tugir félagasamtaka um styrki. Nýlega var úthlutað styrkjum til 35 félagasamtaka, samtals 19 milljónir, en eins og ég sagði áðan var sótt um styrki fyrir verkefni að upphæð 470 milljónir. Þarna er mismunurinn einhvers staðar tæpar 300 milljónir og sýnir í rauninni hversu gróskumikið starf og mikilvægt er unnið í þessum málaflokki og því miður voru mörg samtök sem ekki var hægt að styrkja.

Fjármagn til úthlutunar er takmarkað. Því var ljóst að forgangsraða þarf þeim verkefnum sem hljóta styrki. Það starfslag hefur verið haft á að ráðherraskipaður starfshópur starfsmanna innan ráðuneytisins metur styrkumsóknir út frá fyrirframgefnum forsendum og gerir tillögur til ráðherra um veitingu styrkja, samanber reglur um úthlutun styrkja sem félags- og jafnréttismálaráðherra veitir samkvæmt safnliðum fjárlaga hverju sinni. Umsóknirnar eru metnar út frá gildi og mikilvægi verkefnisins, að markmið séu skýr og grein gerð fyrir tilætluðum árangri, að fram komi hvernig árangur verði metinn út frá fjárhagsgrundvelli verkefnisins.

Samtök umgengnisforeldra hafa áður hlotið styrki af safnliðum fjárlaga á sviði félagsmála, en ekki er hægt að ganga að því sem vísu að þau félagasamtök sem eitt sinn hafa hlotið styrk fái aftur styrk að ári. Það að veita ekki Samtökum umgengnisforeldra styrk af safnliðum fjárlaga vegna verkefna á sviði félagsmála árið 2018 þýðir ekki að álitið sé að starfsemi samtakanna sé ekki mikilvæg fyrir þann hóp sem stendur í baráttu vegna umgengnismála.

Ég ítreka aftur að mismunurinn á umsóknum sem sótt var um eru 470 milljónir, en það sem var til úthlutunar voru 180 milljónir.

Það má kannski til umhugsunar velta því fyrir sér hvort starfsemi þessara samtaka ætti hugsanlega að heyra undir safnliði dómsmálaráðuneytisins. Hluti verkefna Samtaka umgengnisforeldra, svo sem á sviði umgengnismála, heyra undir dómsmálaráðuneytið en verkefni á sviði meðlagsmála heyra í raun undir samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið. Þá heyra vissulega ákveðin verkefni á sviði lífskjara undir félagsmálaráðuneytið, svo sem ráðgjöf og aðstoð við skuldara, almannatryggingar, fjárhagsaðstoð sveitarfélaganna og húsnæðismál, sem öll geta vegið þungt í þessu sambandi.

Síðan spyr hv. þingmaður hvaða úrræði ráðherra hyggist bjóða þeim sem áður sóttu um ókeypis þjónustu og ráðgjöf hjá samtökunum. Það má benda á í því sambandi að ýmsar opinberar stofnanir og sveitarfélög veita ókeypis þjónustu og ráðgjöf sem Samtök umgengnisforeldra leitast við að sinna. Þar má til dæmis nefna að embætti sýslumanna bjóða upp á ýmsa sérfræðiráðgjöf á sviði fjölskyldumála. Má þar nefna mál er varða forsjá, lögheimili og umgengni, auk þess sem boðið er upp á sáttameðferð fyrir foreldra og börn þeirra. Innheimtustofnun sveitarfélaga veitir ýmsa ráðgjöf, þar á meðal til meðlagsgreiðenda og móttakenda meðlags. Umboðsmaður skuldara veitir einstaklingum sem eiga í greiðsluerfiðleikum ókeypis ráðgjöf. Tryggingastofnun ríkisins veitir víðtæka ráðgjöf á sviði almannatrygginga, m.a. til þeirra sem þurfa að bæta úr vegna framfærslu barna. Félagsþjónusta sveitarfélaga veitir ýmsum íbúum ýmiss konar félagslega ráðgjöf, svo sem á sviði fjármála, húsnæðismála, uppeldismála, skilnaðarmála, þar með talin forsjár- og umgengnismál, ættleiðingarmál o.fl. Orator, félag laganema við Háskóla Íslands, veitir almenna endurgjaldslausa lögfræðiaðstoð.

Virðulegur forseti. Kjarninn í því sem ég segi er sá að sótt var um fyrir 470 milljónir, það eru 179 milljónir sem við úthlutuðum. Kjarninn í þessu er sá að ég held að það væri jákvætt að taka upp umræðu um mikilvægi þriðja geirans sem hluta af þjónustu við borgara þessa lands, hvort sem er á sviði félagsmála eða undir öðrum málaflokkum.

Ég er þeirrar skoðunar, og hef alltaf verið alveg frá því ég var í fjárlaganefnd á sínum tíma, að það starf sem unnið er af félagasamtökum eins og þessum sé gríðarlega mikilvægt og það sé í raun spurning hvort við eigum ekki að gera meira í þessa veruna, eða hvort skynsamlegt sé að setja sérstaka löggjöf í kringum þriðja geirann með sérstökum stuðningsaðgerðum við félagasamtök almennt eins og sum nágrannalönd okkar gera.

Ég segi eins og er: Öll þessi félagasamtök eru gríðarlega mikilvæg. Þetta er ekkert undanskilið í því efni.