148. löggjafarþing — 36. fundur,  7. mars 2018.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 94/2017 um breytingu á VII. viðauka og X. viðauka við EES-samninginn.

333. mál
[18:38]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegur forseti. Með þessari þingsályktunartillögu er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 94/2017, um breytingu á VII. viðauka við EES-samninginn um gagnkvæma viðurkenningu á starfsmenntun og hæfi, og X. viðauka við EES-samninginn um almenna þjónustu og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins um breytingu á eldri tilskipun um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi og reglugerð um samvinnu á sviði stjórnsýslu fyrir tilstilli upplýsingakerfisins fyrir innri markaðinn.

Helstu nýmæli og breytingar sem tilskipunin mælir fyrir um er að tekið er upp svokallað evrópskt fagskírteini sem ætlað er að ýta undir frjálsa för fagfólks og tryggja skilvirkari og gagnsærri viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi. Með fagskírteininu geta umsækjendur sótt um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi með rafrænum hætti. Einnig er samkvæmt tilskipuninni heimilt að veita takmarkaðan aðgang að starfsgrein. Slíkt á við ef svo mikill munur er á þeim kröfum sem gerðar eru til viðkomandi starfsgreinar í heimaríki viðkomandi og væntanlegu gistiríki að kröfur í því síðarnefnda jafngildi því að umsækjandinn þyrfti að ljúka fullu námi og þjálfun í gistiríkinu til að fá fullan aðgang að viðkomandi starfsgrein í því ríki. Enn fremur er kveðið á um að aðildarríki skuli nýta upplýsinga- og þjónustumiðstöðvar sem komið var á fót til að auðvelda viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi. Samkvæmt tilskipuninni verður heimilt að taka upp sameiginlegar menntunarkröfur fyrir sameiginlegt lokapróf fyrir starfsgreinar þar sem þess er óskað og koma þannig á sjálfkrafa viðurkenningu fyrir þær greinar. Skulu nemendur í starfsnámi þannig eiga þess kost að fá viðurkennt starfsnám eða starfsreynslutíma innan löggiltra starfsgreina sem fer fram í öðru EES-ríki en í heimalandinu. Tilskipunin mælir enn fremur fyrir um að rýna beri frekar núgildandi fyrirkomulag lögverndunar starfsgreina, einkum til að tryggja að núgildandi kröfur feli ekki í sér beina eða óbeina mismunun á grundvelli ríkisfangs eða búsetu. Þar sem innleiðing tilskipananna kallar á lagabreytingar var umrædd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar tekin með stjórnskipulegum fyrirvara af hálfu Íslands. Samkvæmt lögum um þingsköp Alþingis ber að aflétta slíkum fyrirvara með þingsályktunartillögu. Því er óskað eftir samþykki Alþingis fyrir þeirri breytingu á EES-samningnum sem í ákvörðuninni felst svo að aflétta megi hinum stjórnskipulega fyrirvara.

Ég legg til, virðulegur forseti, að að lokinni þessari umræðu verði tillögu þessari vísað til hv. utanríkismálanefndar.