148. löggjafarþing — 37. fundur,  8. mars 2018.

fsp. 1.

[10:34]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir mjög góða fyrirspurn. Ég vil byrja á að segja að við í mennta- og menningarmálaráðuneytinu vorum rétt í þessu að senda frá okkur yfirlýsingu þar sem við hörmum að framkvæmdin á samræmdum prófum hafi hreinlega mistekist. Þetta hefur valdið nemendum og kennurum miklum óþægindum.

Ég átti fund með forstjóra Menntamálastofnunar, Arnóri Guðmundssyni, síðdegis í gær til að fara yfir umfang vandans og hvers vegna þetta hefði átt sér stað. Ég vil bara upplýsa þingheim um að það sem átti sér stað voru hreinlega tæknileg mistök hjá þjónustuaðilum, þeir höfðu ekki fært prófið yfir á afkastameiri netþjón. Í kjölfarið fór af stað viðbragðsáætlun og var áhersla lögð á að upplýsa alla. Auðvitað er þetta mjög slæmt mál. Nemendur eru búnir að vera að undirbúa sig fyrir þetta próf, eins og hv. þingmaður nefndi, í talsvert langan tíma og auðvitað er það mjög slæmt þegar nemendur ná ekki að ljúka prófinu.

Í kjölfarið hef ég ákveðið að boða alla hagsmunaaðila á fund minn næstkomandi miðvikudag til að fara yfir þessa stöðu og taka ákvörðun um hvað verður gert vegna þeirra stöðu sem er komin upp. Ég hef verið í mjög góðu sambandi við skólastjórnendur og flesta hagsmunaaðila vegna þessa máls. Ég er búin að fá fregnir af því að könnunarpróf í stærðfræði sem nú stendur yfir gangi mjög vel og ég óska þess að sú prófraun verði talsvert farsæl.

Varðandi spurningu þingmannsins held ég að við séum ekki komin á þann stað akkúrat núna að taka ákvörðun um það hvað við gerum varðandi samræmdu prófin. Þau hafa verið iðkuð í talsverðan tíma, þau hafa sína kosti og þau hafa líka sína galla, en það þarf að vera ákveðinn fyrirsjáanleiki og við þurfum að taka svona ákvörðun og vera búin að undirbúa hana mjög vel.