148. löggjafarþing — 38. fundur,  8. mars 2018.

vextir og verðtrygging.

246. mál
[14:27]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (Flf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka ræðumanni hans ágæta innlegg hérna. Hann varpar mikilvægu ljósi á málið með því að fjalla um það hversu til að mynda verðþróun á fasteignum er mismunandi eftir landsvæðum. Í því liggur líka óbein ábending um það hvað þessi mælikvarði, sem menn halda að sé áreiðanlegur um verðlagsþróun, sem er þessi vísitala að meðtöldum húsnæðisliðnum og reyndar hvort sem er, er ófullkominn. Lítum á eitt atriði sem er inni í svona vísitölu sem mælist þar. Það er fyrirbæri eins og tölvur og farsímar. Þetta er alltaf að lækka í verði samfara því sem gæði þessara hluta aukast. Þessi hugsun að það komi til greina að binda lánasamninga þar sem venjulegt fólk á í hlut, einstaklingar, heimili, við jafn flókið fyrirbæri eins og þessi vísitala í raun og sanni er vekur mér sífellda furðu, verð ég að leyfa mér að segja.

Mál hafa þroskast og þróast, það er orðinn aukinn skilningur og við erum í allt öðruvísi þjóðfélagi en menn binda sig við þetta sem felur í sér eins konar höfnun á því að við lifum í efnahagslífi þar sem peningar eru gjaldmiðill. Menn koma hingað og segja að sex hestar séu fengnir að láni og eitthvað svona — það á við í vöruskiptahagkerfi. Í venjulegu landi myndast vextir (Forseti hringir.) á markaði þar sem margir eiga hlut og það er í gegnum þá sem hæfilegt endurgjald fyrir lánið er veitt, en við erum föst í þessum hjólförum, því miður.