148. löggjafarþing — 40. fundur,  19. mars 2018.

samræmd próf og innritun í framhaldsskóla.

328. mál
[18:09]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda og hæstv. ráðherra fyrir svörin. Þetta vandræðamál með samræmdu prófin hefur náttúrlega legið eins og mara á þjóðinni núna nokkuð lengi. Maður spyr sig, ef samræmdum prófum er ekki ætlað að vera inntökupróf í framhaldsskóla, til hvers nákvæmlega þau séu, og hvort það séu kannski til aðrar og betri leiðir til að meta hæfni nemenda og hvort ástæða sé kannski til að treysta kennurum meira til að meta þessa hæfni í samráði við foreldra og nemendur sjálfa.

Próf fara að lifa sjálfstæðu lífi. Þetta verður svona kerfi sem nærir sjálft sig. Það er ekki hlutverk skóla fyrst og fremst að meta hæfni (Forseti hringir.) heldur að finna hæfni og efla hæfni.