148. löggjafarþing — 41. fundur,  20. mars 2018.

lögheimili og aðsetur.

345. mál
[14:27]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. ráðherra fyrir að leggja þetta mál fram; það er margt gott í því, sé ég. Það er samt ýmislegt í sambandi við lögheimilisskráningar sem ég hef velt fyrir mér í þó nokkurn tíma. Mér finnst íslenskt samfélag stundum fara offari í skráningu um fólk og er ég þá að tala um þessa ríku þörf yfirvalda til að vita allt um alla. Mér finnst það mjög óþægilegt.

Það gleður mig því að sjá hér í 7. gr. talað um dulið lögheimili. Þar segir, með leyfi forseta:

„Þjóðskrá Íslands getur heimilað einstaklingi og fjölskyldu hans að fá lögheimili sitt dulið í þjóðskrá og að því verði ekki miðlað.“

Þetta hljómar mjög vel fyrir mér.

Hins vegar kemur fram í greinargerðinni að þetta sé heimild fyrir fólk þegar það er í hættu vegna ofsókna, hótana eða meiðinga eða vegna þess að starf einstaklings er þess eðlis að það kunni að vera í hættu. Ég velti fyrir mér hvers vegna þessi takmörkun sé. Hvers vegna mega einstaklingar ekki bara dylja sitt lögheimili, af því bara? Eða vegna þess að þeir vilja byrja á því að gera eitthvað sem kannski vekur andúð og reiði (Forseti hringir.) annarra, segjum tala tæpitungulaust um trúarbrögð á internetinu; annars staðar hefur það komið fólki í klandur en það veit það ekki endilega fyrir fram.