148. löggjafarþing — 41. fundur,  20. mars 2018.

fjármálastefna 2018--2022.

2. mál
[23:24]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka kærlega fyrir skýr og greinargóð svör. Ég held að þingheimur ætti að hlusta á þessi varnaðarorð. Hv. þingmaður þekkir mjög vel til vinnumarkaðarins og það skiptir máli hvað hann segir hvað þetta varðar.

Mig langar í seinna andsvari mínu að beina athyglinni að gjaldmiðlinum. Við sjáum að í umsögn Samtaka iðnaðarins um fjármálastefnuna er það dregið sérstaklega fram að sveiflurnar í raungengi krónunnar hafa verið gríðarlega miklar. Það hefur áhrif á fyrirtæki og almenning í landinu. Ég held að við hv. þingmaður séum skoðanabræður hvað það varðar að íslenska krónan er dragbítur á íslensk fyrirtæki og íslensk heimili.

Aftur vil ég kalla eftir áliti þingmannsins á hvaða áhrif hann heldur að stefnan hafi á krónuna, á sveiflur hennar og kannski ekki síst á vaxtastig hennar, því að við sjáum að í umsögnum benda hagsmunaaðilar á að við það að slá slöku við í ríkisfjármálunum, eins og hæstv. fjármálaráðherra er að gera, þá reynir meira á peningastefnuna. Það kallar hugsanlega á hærri vexti og vextir eru í raun ekkert annað en verð á peningum. Þannig að í rauninni erum við þá að gera peninga á Íslandi dýrari (Forseti hringir.) með því að samþykkja þessa stefnu.