148. löggjafarþing — 42. fundur,  21. mars 2018.

störf þingsins.

[15:11]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (Flf):

Virðulegi forseti. Ég vil nýta þetta tækifæri til að fjalla um eftirlitsmyndavélar eða löggæslumyndavélar. Slíkar myndavélar eru að verða órjúfanlegur þáttur í löggæslu í almannarými víða í Evrópu og ekki síður til að stemma stigu við hryðjuverkaógn. Ekki þarf að taka fram að á þessu sviði hafa orðið stórstígar tækniframfarir. Hér takast auðvitað á sjónarmið persónuverndar og sjónarmið almannaöryggis og löggæslu.

Minnkandi kostnaður við kaup á sífellt fullkomnari tækjum hefur leitt til aukinnar notkunar og vistun á myndefninu hefur orðið auðveldari og fyrirferðarminni, fyrir utan að skýrleiki myndefnis hefur orðið meiri með hverju árinu sem líður. Notagildi þessa myndefnis er augljóst fyrir lögreglu við uppljóstrun brota og einnig svo að lögregla geti brugðist við í rauntíma. Þessa tækni má einnig nota til almennrar löggæslu, t.d. til að fylgjast með farartækjum, t.d. ótryggðum eða þeim sem hafa verið tekin ófrjálsri hendi. Hér er ótalin gagnsemi slíkra myndavéla við landamæraeftirlit þar sem tæknin getur komið að ómetanlegum notum við greiningu á fólki sem er að ferðast yfir landamæri. Þá er ónefnt notagildi eftirlitsmyndavéla fyrir almannavarnir til þess að telja farartæki inn og út af hættusvæðum sem getur skipt sköpum fyrir rýmingu í neyðarástandi.

Hingað til hafa kaup, uppsetning, rekstur og endurnýjun þessara tækja verið með ýmsum og ólíkum hætti víða um land og það jafnvel svo að tafið hefur fyrir uppsetningu þessara öryggistækja á fjölmörgum stöðum um landið. Mikilvægt er að unnið verði að samrýmdu verklagi varðandi þennan málaflokk að teknu fullu tilliti til persónuverndarsjónarmiða þannig að allir landsmenn búi að þessu leytinu við sama öryggi hvað þetta mikilvæga málefni varðar.