148. löggjafarþing — 42. fundur,  21. mars 2018.

kosningar til sveitarstjórna.

40. mál
[19:13]
Horfa

Pawel Bartoszek (V):

Virðulegi forseti. Ég var einn af flutningsmönnum þessa máls þegar ég var á þingi á seinasta kjörtímabili og styð það að sjálfsögðu áfram. Það eru mörg rök í þessu máli sem ég hef heyrt fyrr og síðar. Ein þeirra sem mér þóttu hvað áferðarfallegust gegn málinu, svo ég nefni þau af sanngirni, er að við leggjum ekki þær skyldur á börn á aldrinum 16–18 ára að þurfa að bera ábyrgð á restinni af samfélaginu, að við fullorðna fólkið tökum þær byrðar á okkur en setjum þær ekki á börn. Mér finnst það að einhverju leyti áferðarfalleg hugsun en hún breytir ekki skoðun minni á frumvarpinu í heild sinni.

Meðal raka sem menn hafa nefnt hér eru rök um að gæta þurfi að innra samræmi. Það eru ágætisrök en innra samræmi trompar ekki allt annað. Í einum af þeim flokkum þar sem menn hafa verið hvað duglegastir að lýsa yfir andstöðu sinni, Sjálfstæðisflokknum, getur t.d. 15 ára einstaklingur ekki bara gengið í flokkinn heldur líklegast orðið formaður hans. Það hefur kannski ekki truflað fólk þar að sjá innra ósamræmið í þessu.

Ég tek reyndar fram að ég hóf mína stjórnmálaþátttöku talsvert eldri, ekki miklu eldri þó, ég var u.þ.b. 19 ára gamall og gekk um kosningaskrifstofur allra stjórnmálaflokka fyrir kosningarnar 1999. Þegar ég gekk inn á kosningaskrifstofu Vinstri grænna og hitti Ögmund Jónasson, þáverandi hv. þingmann, var ég búinn að finna minn stað í pólitík. Þessi saga hefur heyrst áður. Eitt af því sem hefur hins vegar ekki komið fram og ég komst bara að um daginn er að í sömu ferð hitti ég rétt áður ungan, fúlskeggjaðan mann sem einnig var á lista Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs á þessum tíma og það er varaformaður þingflokks Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs. Hann átti líka þátt í að móta mína pólitísku afstöðu, þó kannski ekki á þann hátt sem hann hefði helst kosið. Síðan þá hef ég sem sagt verið yfirlýstur og stoltur hægri maður.

Eins og ég segi held ég að þetta mál sé gott. Sú lýsing sem ég hef gefið á því hvernig ég sjálfur hóf mína stjórnmálaþátttöku er eins og ég held að þetta eigi að vera. Ég held að það sé ekki endilega hægt að búast við því að skólarnir eða fræðslustarf drífi hinn pólitíska áhuga áfram. Stofnanir þurfa kannski einfaldlega að halda sig til hlés og leyfa flokkum og stjórnmálasamtökum að hafa þetta samtal við fólk, án þess að grípa þar inn í. Ég held að það sé leiðin okkar til að kalla það fram að fólk nýti sér kosningarrétt sinn.

Að öðru leyti lýk ég máli mínu. Ég ætla ekki að stuðla að því að athyglissýki frjálslyndra þingmanna tefji framför þessa valds og vona svo innilega að málið nái fram að ganga.