148. löggjafarþing — 43. fundur,  22. mars 2018.

virkjun Hvalár á Ströndum.

[10:58]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (Flf):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið sem ég leyfi mér að vísu að segja að ég hefði vonast eftir eindregnari stuðningi við þetta þýðingarmikla málefni.

Ég ætla að leyfa mér að vitna í Skipulagsstofnun varðandi umrædda framkvæmd, með leyfi forseta:

„Skipulagsstofnun telur að helstu umhverfisáhrif Hvalárvirkjunar felist í umfangsmikilli skerðingu óbyggðs víðernis og breyttri ásýnd fyrirhugaðs framkvæmdasvæðis og landslagi þess, þar sem náttúrulegt umhverfi verður manngert á stóru svæði.“

Síðar segir:

„Skipulagsstofnun telur að áhrif Hvalárvirkjunar á ásýnd, landslag og víðerni verði verulega neikvæð“ — ég ítreka, verulega neikvæð — „þrátt fyrir mótvægisaðgerðir.“

Ég leyfi mér sömuleiðis að vitna í Snorra Baldursson, fyrrverandi formann Landverndar og höfund öndvegisritsins Náttúra Íslands. Hann segir, með leyfi forseta:

„Er eitthvað unnið fyrir Vestfirðinga með tengingu frá Hvalá að Geiradal um Nauteyri við Ísafjarðardjúp?“ Og hann vísar til þess að komið hafi verið upp sjálfvirkri varaaflsstöð í Bolungarvík o.s.frv. og segir að að miklu (Forseti hringir.) leyti sé því vitnað í fortíðarvanda þegar rætt er um lítið raforkuöryggi á norðanverðum Vestfjörðum.

Ég ítreka hvatningu mína til forsætisráðherra um (Forseti hringir.) að á hennar vakt verði þessi mikilvægu náttúruauðæfi varin.