148. löggjafarþing — 43. fundur,  22. mars 2018.

kosningar til sveitarstjórna.

40. mál
[14:06]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég var fyrsti flutningsmaður þessa máls á síðasta þingi og málið hefur tekið breytingum í takt við þær umsagnir sem bárust þá. Fyrir mér snýst þetta mál ekki um samræmingu aldursákvæða, um hvenær fólk eigi að hafa rétt til að gera tiltekna hluti, heldur um að veita fleirum tækifæri til þess að hafa áhrif á það samfélag sem þeir búa í. Ég tel að fólk á þessum aldri sé fullbúið til þess að taka afstöðu til slíkra mál með upplýstum hætti rétt eins og þeir sem eldri eru.

Hér hefur töluvert verið rætt um fræðslu. Ég get tekið undir það að við getum gert miklu betur í fræðslu til nýrra kjósenda. Þau rök eiga líka við um þann kjósendahóp sem fær atkvæðisrétt 18 ára í dag því að þeirri fræðslu er ekki verið að sinna. Þannig að ég tel að við höfum hér tækifæri til að gera betur fræðslumálum til nýrra kjósenda, en um leið getum við rýmkað þennan rétt ungs fólks til að hafa áhrif á nærsamfélag sitt. Þetta unga fólk er það fólk sem þekkir einmitt starfsemi sveitarfélaganna hvað best, nýkomið úr grunnskóla, (Forseti hringir.) þátttakendur í íþrótta- og tómstundastarfi. Ég segi: Ég treysti fáum betur en þessu unga fólki til að segja mér hvernig sveitarfélög við viljum sjá. (Gripið fram í: Heyr. heyr.) Ég mun styðja þetta mál.