148. löggjafarþing — 43. fundur,  22. mars 2018.

kosningar til sveitarstjórna.

40. mál
[14:56]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég held að það sé engin ástæða til að dæma málflutning fólks í þessum sal þótt við séum ekki sammála. Hins vegar finnst mér nauðsynlegt að benda á að þetta mál hefur verið til umræðu áður hér á Alþingi. Það er ekki eins og þetta sé glænýtt mál á dagskrá stjórnmálanna, nýkomið fram.

Mér finnst líka ástæða til að benda á það, því að hér er rætt um að utankjörfundur hefjist eftir rúma viku, að við erum búin að vera með á dagskrá Alþingis í nokkur ár breytingar á kosningalögum sem við höfum enn ekki náð að ljúka við til þess að þar sé til að mynda aukið samræmi á milli þess hvenær framboðsfrestur rennur út og hvenær utankjörfundur hefst. Við höfum ekki enn náð að ljúka því þannig að þar er ósamræmi til staðar.

Ég spyr: Eigum við ekki bara að stoppa allar kosningar meðan við komum okkur saman um það? Kjörgengi til forseta er 35 ár en kosningaaldur miðast við 18 ár. Finnst okkur það ósamræmi svona hættulegt? Þetta mál snýst nefnilega ekki um það. Það snýst um að við ætlum að gefa þessu unga fólki tækifæri til að aukinna áhrifa og fylgja þar með fordæmi fjölmargra Evrópulanda sem hafa gert nákvæmlega það af því að það er stórkostlega verðmætt fyrir samfélagið að við fáum þessar raddir í lið með okkur til að móta samfélagið. [Kliður í þingsal.]