148. löggjafarþing — 43. fundur,  22. mars 2018.

fjármálastefna 2018--2022.

2. mál
[18:48]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér fjármálastefnu ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks, Vinstri grænna og Framsóknarflokks. Fjármálastefna ríkisstjórnar til fimm ára er nokkur nýlunda hér á Alþingi og markast eins og við vitum af nýlegum lögum um opinber fjármál. Markmið þeirra laga er að stuðla að góðri hagstjórn og styrkri og ábyrgri stjórn opinberra fjármála. Þannig er ætlað að tryggja heildstæða stefnumörkun í opinberum fjármálum til lengri og skemmri tíma, að vandaður undirbúningur sé á áætlunum og lagasetningum er varða efnahag opinberra aðila, að við séum skilvirk og hagkvæm við opinbera fjárstjórn og starfsemi og að opinber reikningsskil séu að sjálfsögðu í samræmi við viðurkenndar bókhalds- og reikningsreglur og virkt eftirlit sé með stjórn og ráðstöfun opinbers fjár og réttinda.

Ég hygg að við hér inni og reyndar samfélagið allt séum sammála og sátt við þessi markmið og þar af leiðandi sammála um mikilvægi laganna um opinber fjármál. Ég vona svo innilega að enginn hér inni vilji fara til baka í gamla farið þar sem var eingöngu fjallað um fjármál ríkisins fyrir næsta ár og það gert um það bil korter í áramót.

Það má líka færa rök fyrir því að í fjármálastefnu komi fram mikilvæg stefnuyfirlýsing hverrar ríkisstjórnar því að stefnan mótar þann ramma sem allar aðrar stefnur og áætlanir ríkisstjórnarinnar þurfa að falla innan. Það er þó eðlilegt að þingheimur bíði hér í ofvæni eftir fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar, en í henni er auðvitað að finna frekari útfærslur á þeirri stefnu sem hér er til umræðu. Það er því ljóst að við fáum enn fleiri tækifæri til að ræða stefnu ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum strax eftir páska.

Markmiði fjármálastefnunnar er í lögum um opinber fjármál skipt í nokkra þætti, það er annars vegar stefna um umfang, afkomu og þróun eigna og skulda og langtímaskuldbindinga opinberra aðila. Það er mjög mikilvægt að þar er bæði verið að taka fyrir ríki og sveitarfélög. Þetta skal vera til eigi skemmri tíma en fimm ára. Markmiðin skulu vera sett fram sem hlutfall af vergri landsframleiðslu.

Hins vegar er annar þáttur greinargerð um það hvernig grunngildunum sé mætt. Til að rifja það upp þá eru grunngildin sjálfbærni, varfærni, stöðugleiki, festa og gagnsæi. Ég held að það sé mikilvægt að hafa þá þætti líka með því ég er ekki viss um að allur almenningur treysti sér í að lesa úr því sem eru fjárhagslegu markmiðin. En ef við rifjum þau markmið aðeins upp þá eru þau samandregin að afgangur á heildarjöfnuði hins opinbera á tímabilinu 2018–2022 þarf að vera að lágmarki 1,4% af vergri landsframleiðslu árið 2018, 1,2% 2019, 1,1 2020 og 1% árið eftir það. Heildarskuldir hins opinbera verði komnar undir 30% af vergri landsframleiðslu í árslok 2020 og verði ekki hærri en 25% af vergri landsframleiðslu í lok árs 2022. Heildarútgjöld hins opinbera vaxi á árinu 2018 um 0,6% af vergri landsframleiðslu og þróun á umfangi starfsemi hins opinbera út tímabilið verði með þeim hætti að hún stuðli að efnahagslegum stöðugleika.

Þessir þættir taka á markmiði laganna um umfang, afkomu og þróun eigna og skulda, sem er auðvitað mjög mikilvægt. Í rauninni er þá líka verið að færa rök fyrir sjálfbærni, varfærni, stöðugleika, festu og gagnsæi.

Það er gerð sérstaklega grein fyrir því hvað felst í þessum hugtökum sem ég held að séu að mörgu leyti meira á mannamáli en hin markmiðin okkar um hlutfall af vergri landsframleiðslu. Ástæðan fyrir því að ég geri þetta að sérstöku umræðu mínu er að ákveðnir þingmenn hafa lagt fram frávísunartillögu á þeim forsendum að þessi þáttur sé ekki uppfylltur. Þá langar mig að rifja upp það sem segir í áliti fjármálaráðs, með leyfi forseta:

„Fjármálaráð hefur í fyrri álitum sínum fjallað um þörfina á grunngildamiðaðri stefnumörkun og öguðum vinnubrögðum í öllu ferlinu líkt og 6. gr. laganna um opinber fjármál kveður á um. Það er því fagnaðarefni að stjórnvöld leggi sig fram við að skýra og túlka grunngildin og stuðla þannig að málefnalegri umræðu um þau. Fjármálaráð sér fyrir sér að þessi vinna haldi áfram og þannig myndist frekari festa um hvaða kröfu grunngildin kalla á í greinargerðum stjórnvalda um fjármálastefnu og fjármálaáætlun.“

Ég skil þetta svo að fjármálaráð líti svo á að þetta ákvæði sé uppfyllt því að talað er um fagnaðarefni. En á sama tíma lítur ráðið svo á að hægt sé að vinna enn meira með þennan þátt. Ég æski þess að það verði gert, enda tel ég grunngildin öll af hinu góða og í raun algjörlega nauðsynleg gildi fyrir framtíðarstefnumörkun okkar í ríkisfjármálum.

Að þessu sögðu langar mig að beina umræðu minni að stöðu og mikilvægi sveitarfélaganna í þróun opinberra fjármála. Það er í fyrsta skipti núna sem staða sveitarfélaganna eru tekin inn í svo mikilvæga stefnumörkun sem fjármálastefnan er og þar með unnið með heildarstærð opinberra fjármála því að sveitarfélögin eru stór hluti af opinberum fjármálum. Það þarf ekki að fara mjög mörgum orðum um það hversu stórt hlutverk sveitarfélaganna er orðið og hefur aukist gríðarlega á síðustu árum. Það skiptir auðvitað máli í þessu samhengi.

Afkoma sveitarfélaganna hefur batnað mikið á síðustu misserum, það er gott. Fjármálareglur sveitarfélaganna sem fram kom í sveitarstjórnarlögum hafa reynst vel, en þar er annars vegar fjallað um svokallað skuldaþak og svo um jafnræðisreglu, eða afkomu og skuldaregluna. Áhyggjur eða kannski réttara sagt ábendingar mínar lúta að því hvort þessar reglur séu nægjanlegar eða réttar þegar horft er til fjármálastefnu og þeirra markmiða sem þar koma fram.

Samráðsnefnd um opinber fjármál er mjög mikilvægur vettvangur. Mér skilst að nú sé unnið að því að setja fram fjármálaáætlanir sveitarfélaganna samkvæmt hagskýrslustaðli og það mun örugglega skipta máli og bæta enn betur þessa upplýsingagjöf. En ég held að það sé engu að síður óhjákvæmilegt að huga að því á næstu árum hvort lög og reglur um fjármál sveitarfélaganna þurfi að taka einhverjum breytingum til að falla betur undir lögin um opinber fjármál. Ég sé að fjármálaráð bendir einmitt á þann þátt. Ég vil leyfa mér að taka undir þær vangaveltur.

Við erum hér með fjármálastefnu sem tekur á niðurgreiðslu skulda og uppbyggingu innviða. Ég held að hvort tveggja sé mjög mikilvægt. Hér í umræðunni um fjármálastefnu hef ég heyrt fulltrúa stjórnmálaflokkanna takast aðeins á um þetta. Hingað til hef ég nú heyrt fleiri fjalla um það að þörf sé á að gefa jafnvel enn meira í, þó að núna þegar við ræðum fjármálastefnuna bendi margir á að aðhaldskrafan ætti kannski að vera meiri. Ég verð að viðurkenna að ég á stundum svolítið erfitt með að átta mig á því í hvorn fótinn fólk vill stíga hvað þetta varðar. Ég held að með þessari stefnu sem hér liggur fyrir sé verið að stíga mikilvægt skref og feta veginn þarna á milli, annars vegar með ábyrgri fjármálastjórn og niðurgreiðslu skulda, sem skiptir máli á þessum tíma í hagsveiflunni, en ekki síður það að byggja upp innviði. Þá má í rauninni segja að við séum í ákveðnu viðhaldi á fjárfestingum hins opinbera.

Ég fagna þeirri umræðu sem átt hefur sér stað hérna um fjármálastefnuna og held að við hljótum að vera á góðri leið. Mig langar líka að nota tækifærið og hrósa sérstaklega þingflokki Viðreisnar fyrir að leggja fram nýja fjármálastefnu. Ég geri samt ráð fyrir því að hún sé mjög keimlík, ef ekki eins, og fyrri fjármálastefna, ég hef reyndar ekki haft tækifæri til að lesa hana í gegn, en það er auðvitað mjög málefnalegt að leggja fram hvað það er sem flokkurinn vill. Ég hjó reyndar líka eftir því í ræðu hv. þm. Pawels Bartoszeks að hann var kominn með einhvers konar óskaríkisstjórn með forsæti Viðreisnar og fjármálaráðherra Samfylkingarinnar. Ég verð að viðurkenna að ég á erfitt með að átta mig á því hvernig það myndi ná saman miðað við hvernig talað hefur verið í þessum sal, því ég hef heyrt þingmenn Samfylkingarinnar fara mikinn um svokallaða hægri sveltistefnu og hvað þessi 2% séu hræðileg. Ég hef reyndar heyrt fulltrúa þingflokks Viðreisnar tala líka um að þessi 2% séu alveg hræðileg, en það er út frá allt öðrum forsendum.

Engu að síður er gaman að ræða þessi mikilvægu mál. Ég held að miðað við það sem liggur fyrir hér hljótum við að vera að fara ágætismillileið sem flestir sætti sig við.