148. löggjafarþing — 44. fundur,  23. mars 2018.

afnám innflæðishafta og vaxtastig.

[12:08]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka málshefjanda fyrir áhuga hans á þessu máli og fyrir að efna til þessarar umræðu um það. Mig langar að koma fyrst örstutt inn á það, þrátt fyrir ágætisinngang hér um tilgang fjárstreymistækisins, að með því að binda hluta innstreymis sem kemur til landsins til fjárfestinga í fjármálagerningum sem bera háa vexti á alþjóðlegan mælikvarða er verið að draga úr ábata þeirra fjárfesta sem horfa til skemmri tíma vaxtamunarviðskipta.

Innstreymi af völdum vaxtamunarviðskipta getur grafið undan peningalegum og fjármálalegum stöðugleika með því að hindra eðlilega miðlun peningastefnunnar um vaxtafarveginn og hafa óæskileg áhrif á gengi krónunnar. Tækinu er ætlað að stuðla að áhættuminni samsetningu innstreymis en um leið að auka möguleika á að viðhalda vaxtastigi sem er frábrugðið því sem er erlendis, sé þess þörf til að halda verðbólgu í markmiði.

Bara örstutt um þetta. Ég tel að það hefði verið stórkostlega mikið gáleysi af okkar hálfu ef við hefðum ekki sýnt fram á það við afnám hafta að við hefðum lært eitthvað af vaxtamunarviðskiptunum og við værum tilbúin til þess að bæta tólum í verkfærakistu okkar til að bregðast við því. Mér finnst líka mikilvægt að hafa í huga að við vorum að fara inn í talsvert mikla óvissu þegar við afnámum höftin og þetta var í mínum huga ein lykilaðgerð til þess að tryggja farsælt afnám haftanna, afléttingu haftanna, eins og við höfum reyndar séð gerast. Það hefur tekist vel.

Það er spurt hvort ég telji tilefni til að aflétta þeim höftum sem enn eru í gildi á fjárfestingar útlendinga í innlendum verðbréfum á innlánum. Það má segja að almennt um þetta að aðstæður til slökunar bindiskyldu á fjármagnsinnstreymi batni þegar vaxtamunur við útlönd minnkar, gengi lækkar og framleiðsluspenna slaknar. Þegar við horfum á efnahagsframvinduna hérlendis og reyndar erlendis þá hefur hún þróast með þeim hætti undanfarin misseri að það er eðlilegt að huga að slökun bindiskyldunnar eins og við köllum hana. Á móti vegur að afnám fjármagnshafta og bætt lánshæfismat ríkissjóðs hafa gert vaxtamunarviðskipti álitlegri og um leið líklegri. Þá er einnig að líta til þess að enn á eftir að reka endahnútinn á losun fjármagnshafta og þá er ég að vísa til þessarar eftirstæðu aflandskróna sem nema um 88 milljörðum króna. Engu að síður er útlit fyrir að svigrúm til slökunar bindiskyldunnar skapist á næstu misserum, eftir því sem dregur úr mun á efnahagslegum aðstæðum milli Íslands og umheimsins þegar efnahagur erlendis tekur enn frekar við sér og íslenska hagsveiflan verður meira aflíðandi.

Spurt er hvort það komi til greina að fella niður bindiskyldu á ákveðnar tegundir erlendra fjárfestinga að hluta eða að öllu leyti og þá ber hér fyrst að nefna að ákveðnar tegundir innstreymis eru undanskildar bindiskyldunni svo sem hlutabréfafjárfesting og bein erlend fjárfesting, þetta er undanskilið. Þegar bindiskyldunni var komið á tók rammi hennar mið af mati á virkni hennar en einnig komu sniðgöngusjónarmið til sögunnar og með því að undanskilja fyrirtækjaskuldabréf væri opnað á þann möguleika að stofna fyrirtæki sem fjárfestir í ríkisskuldabréfum en fjármagni sig með skuldabréfaútgáfu og kæmist þannig fram hjá bindiskyldunni.

Það ber að hafa í huga að eftirspurn eftir fyrirtækjaskuldabréfum var lítil þegar bindiskyldunni var komið á en þær aðstæður kunna að hafa breyst samanber vaxandi fjárfestingar erlendra aðila í skráðum hlutabréfum og nýlegan lánasamning leigufélags við bandarískan fjárfestingarsjóð. Eðlilegt er því að fara yfir útfærslu bindiskyldunnar með tilliti til þess hvaða eignaflokka hún nær til og er vinna við það hafin í Seðlabankanum.

Því hefur verið velt upp í umræðunni hvort bindiskyldan hafi leitt til hærri vaxtakostnaðar fyrir atvinnulífið og einstaklinga en þá er til þess að líta að það eru nú bara beinlínis markmið bindiskyldunnar að gera Seðlabankanum kleift að viðhalda vaxtastigi sem tekur eingöngu mið af innlendum aðstæðum þannig að það er nú erfitt svara þessu neitandi. En það er ágætt að rifja það upp að þegar fjárstreymistækið var tekið upp var staða efnahagsmála hér á landi töluvert frábrugðin bæði Evrópu og Bandaríkjunum.

Hér var staðan sú að það var spenna en framleiðsluslaki beggja vegna Atlantshafsins á sama tíma en undanfarin misseri hafa þessi efnahagskerfi verið að breytast og slaki í bandaríska hagkerfinu virðist vera horfinn á sama tíma og minnkandi spennu og vaxtar efnahagsumsvifa gætir hér á landi. (Forseti hringir.) Þegar við horfum á það að Seðlabanki Íslands hefur lækkað vexti fimm sinnum og (Forseti hringir.)vextir í Bandaríkjunum hafa verið að hækka og jafnvel búist við því að það haldi áfram á þessu ári þá eru öll merki þess (Forseti hringir.) að aðstæður séu að skapast til þess að taka framkvæmd þessara úrræða til endurskoðunar.