148. löggjafarþing — 44. fundur,  23. mars 2018.

afnám innflæðishafta og vaxtastig.

[12:18]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Ég vil fyrst þakka fyrir þessa góðu umræðu sem hér fer fram. Horfandi á innflæðishöftin sem enn eru við lýði og síðan 88 milljarða eftirstæðisstabbann þá fer vonandi að sjá fyrir haftamálin að meginhluta til, en hvað innflæðishöftin varðar held ég að sé nauðsynlegt að ganga til þeirrar vinnu að vinda ofan af þeirri stöðu sem þar er. Það eru allt aðrar aðstæður í efnahagslífinu nú en voru þegar þau voru sett á, það er öllum augljóst. Framleiðsluspennan er minnkandi svo dæmi sé tekið. Það er bara komin upp sú staða að við sjáum að innflæðishöftin halda vaxtastiginu uppi og þá verðum við að ganga til verksins því að, eins og ég hef margsagt í þessum ræðustól, á endanum snýst þetta mjög mikið um vextina. Það að vaxtastig haldist uppi vegna þessa er raunverulegt vandamál sem bitnar bæði á heimilum og fyrirtækjum landsins.

Svo er annað sem þarf að hafa í huga. Það er engin neyð í kerfinu núna eins og var verið að bregðast við við setningu reglnanna. Við erum í allt annarri stöðu og við eigum að ganga til þess að koma okkur út úr þessu fyrirkomulagi eins hratt og hægt er. Ég hef skilning á sjónarmiðum Seðlabankans að vilja ekki taka höftin af í einu vetfangi en það er stundum þannig að plástrana þarf að rífa af. Ég hvet hæstv. fjármálaráðherra til dáða hvað það varðar að ganga hratt til þessa verks og fækka þeim óleystu málum sem eftir eru í heildarhaftaumhverfi Íslands.