148. löggjafarþing — 44. fundur,  23. mars 2018.

kosningar til sveitarstjórna.

40. mál
[16:04]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Hvað aldursmörk til útivistar varðar þá ráða foreldrar auðvitað reglum á aldursbilinu 16 til 18 ára þó að skrifaðar reglur endi við 16 ára markið. Ég hef alla vega skilið regluverkið þannig, svo ég svari þessari afmörkuðu spurningu fyrst.

En varðandi það sem hv. þingmaður kom inn á, að þegar menn kalli eftir heildstæðri stefnumótun séu menn raunverulega ekki að kalla eftir neinu — ég skil alveg spurninguna. Það er trikk sem er alveg nýtilegt ef menn ætla sér að brúka það þannig. En ég held að þegar við eigum við hluti eins og kosningarrétt, sjálfræði, fjárræði og þar fram eftir götunum, noti menn það ekki sem einhver ódýr trikk að kalla eftir heildstæðri stefnumótun. Eins og ég kom inn á áðan höfum við allt of oft farið út af sporinu því að við tökum út afmörkuð atriði úr einhverju regluverki sem áður var í einhverju skynsamlegu og lógísku flæði, og endum uppi á skeri sem menn sáu ekki fyrir af því að hlutir eru illa undirbúnir og illa grundaðir. Það er það sem ég er hræddur um í þessu máli, að ef við vöðum áfram með þeim hætti sem gert hefur verið hingað til endum við uppi á skeri. Það er ekki til virðisauka fyrir neinn sem kemur að málinu og sérstaklega ekki fyrir Alþingi, af því að það eru nú margir hér inni miklir áhugamenn um aukna virðingu Alþingis. Ég held að hún aukist ekki með því verklagi sem viðhaft hefur verið í þessu máli.