148. löggjafarþing — 44. fundur,  23. mars 2018.

kosningar til sveitarstjórna.

40. mál
[16:08]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er auðvitað augljóst að við myndum hækka kosningaaldurinn upp í 35 ár. Það er eina mögulega lausnin í þessu máli. En að öllu gríni slepptu verð ég að viðurkenna að ég hef ekki skoðað það mál sérstaklega. Ég treysti mér bara ekki til að úttala mig um það. Þá yrði ég að skoða hvaða málefnalegu rök hafa legið til grundvallar þessu á sínum tíma. Mig grunar nú að það sé eitthvað að utan, án þess að ég viti það.

Ég vona að ég strjúki hv. þingmanni ekki öfugt með því að víkja mér undan spurningunni því að ég hef ekki kynnt mér þetta sérstaklega.

Hvað varðar atriðið sem hv. þingmaður kom inn á í byrjun, að það gæti verið æskilegt að breyta hlutum í smærri skömmtum, ekki einblína á heildstæðar breytingar eða heildstæða endurskoðun hvers ramma fyrir sig, byggi ég á reynslu úr mínu fyrra lífi þegar ég starfaði í byggingarbransanum hjá bærilega stóru fyrirtæki sem heitir Loftorka og er rekið í Borgarnesi. Þar sinntum við þjónustu við byggingarverktaka um land allt. Þar kynntumst við á síðustu árum þeim mestu smáskammtabreytingum sem menn hafa lent í í því umhverfi og snýr að byggingarreglugerð. Hún var sett á árunum 2009–2013. Ég man nú ekki hvaða ár það var endurskoðað. Síðan þá er búið að breyta byggingarreglugerðinni sex sinnum. Sjöunda breytingin er á leiðinni. Það er ekki gott. Það flækir mál, það er ruglingslegt og því fylgir kostnaður. Þannig að ég held að við ættum (Forseti hringir.) ekki að mæla gæði Alþingis á því hversu miklu við afköstum og afgreiðum hér, þó að ég hafi gert það að hluta til í mínu fyrra fyrirtæki.