148. löggjafarþing — 44. fundur,  23. mars 2018.

kosningar til sveitarstjórna.

40. mál
[17:07]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er nefnilega alveg rétt að talan 18 er í sjálfu sér ekkert heilög tala. Segir þetta mál ekki okkur að það er miklum vandkvæðum bundið að fólk hafi kosningarrétt sem ekki er lögráða? Er það ekki eiginlega bara kjarni málsins? Það er vandamálið sem við erum að glíma við, sem gerir framkvæmdina erfiðari, það gerir kynninguna erfiðari, það gerir þetta allt erfitt, að vera með kosningarrétt ólögráða. Það er líka vandamál væntanlega, því að gert er ráð fyrir því í kosningalögunum að þeir einir hafi kosningarrétt sem eru kjörgengir. Svo bara allt í einu breytum við því hér með einu pennastriki þótt ákvæðið sé enn þá í hinum lögunum, en þá ákveðum við bara að 16 ára og 17 ára fái kosningarrétt en verði ekki kjörgengir. Það eru margir angar á þessu sem ganga hreinlega ekki upp. Það er ósamkvæmni í löggjöf. Þetta er vond löggjöf sem er með þessum hætti. Ef mönnum er svona annt um það að 16 og 17 ára hafi þennan kosningarrétt þá skulum við bara gera þau lögráða. Er það ekki kjarni málsins?