148. löggjafarþing — 44. fundur,  23. mars 2018.

kosningar til sveitarstjórna.

40. mál
[18:12]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Óla Birni Kárasyni fyrir andsvarið. Hann spyr hvort ég sé sammála honum varðandi þessi aldursmörk. Ég held að aðalatriðið sé að svona mál séu samþykkt í sátt. Að þingheimur komi sér saman um hvað beri að gera. Ég var á þessu frumvarpi í upphafi, í desember. Ég er á þeirri skoðun að færa eigi kosningaaldur niður. En menn spyrja um reynslu og ráðleggingar. Ég tel ekki ráðlegt og ekki óhætt að fara út í þetta eins og staðan er núna í lok mars, með þessum skamma fyrirvara. Það er bara alls ekki ráðlegt.

Það tekst ekki að samræma framkvæmdina nægilega á þessum skamma tíma. Það er mat ráðuneytisins og það er líka mat mitt. Það er stórhætta á mistökum. Framkvæmdin sjálf, lagalega og framkvæmdarlega, er gerleg en hættan á mistökum er stórkostleg. Og það er hætta á öðrum mistökum, sem ég vil segja að sé enn þá ríkari í mínum huga, þ.e. að þessi hópur skili sér ekki á kjörstað vegna þess að þetta fari fram hjá svo mörgum, mikið fleirum en þeim sem eru 18–19 ára. Það væru stórkostleg mistök af þinginu að lækka kosningaaldur og standa svo uppi með 40% þátttöku þessa fólks þegar almenn þátttaka er kannski 70–80%.