148. löggjafarþing — 44. fundur,  23. mars 2018.

kosningar til sveitarstjórna.

40. mál
[18:14]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir svarið. Við erum a.m.k. samstiga að því leyti að leggja áherslu á að þegar menn ráðast í róttækar breytingar — því að þetta er róttæk breyting, við getum deilt um það í þessum þingsal um hvort um grundvallarbreytingu sé að ræða en mér finnast það næstum því vera hártoganir — sé mikilvægt að sæmileg sátt sé um það í þingsal, að umræða hafi átt sér stað og undirbúningur sé nægur. Við erum sammála um það.

Ég vil spyrja þingmann: Telur hann nauðsynlegt að þegar við lækkum kosningaaldur nái sú lækkun einungis til ákveðinna kosninga, í þessu tilfelli bara sveitarstjórnarkosninga? Ég tel að ganga þurfi alla leið þannig að fólk öðlist kosningarrétt 16 ára í alþingiskosningum, forsetakosningum, sveitarstjórnarkosningum, þjóðaratkvæðagreiðslum (Forseti hringir.) og svo framvegis.

Og önnur spurning: Ef þetta frumvarp nær fram að ganga, öðlast menn þá rétt á að taka þátt í íbúakosningum?