148. löggjafarþing — 45. fundur,  9. apr. 2018.

smálán.

[16:08]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka þessa mikilvægu umræðu. Ég held að það sé samt alltaf gott að hafa í huga að hversu illa sem okkur er við einhverja tiltekna starfsemi er hér um að ræða eitt form lánastarfsemi. Grunnurinn að aðgengi að fjármagni — við höfum séð það í gegnum tíðina að skortur á fjármagni virðist á endanum leiða til einhverrar starfsemi sem þessarar. Við sáum það t.d. að þegar viðskiptabankarnir þrengdu mjög að skilyrðum fyrir lánveitingum í gegnum yfirdrætti grasseraði starfsemi sem þessi. Ég held að við þurfum að gæta þess að þegar við nálgumst umræðuna um leyfisskyldu starfsemi sem þessarar, sem ég er sammála, ég tel að að sjálfsögðu eigi þetta að vera leyfis- og eftirlitsskyld starfsemi eins og hver önnur, þá ýtum við henni ekki bara lengra undir yfirborðið, sem virðist dálítið hafa verið tilfellið með þessa starfsemi og þær ráðstafanir sem við höfum gripið til gegn henni hingað til. Þær hafa ekki virkað. Þetta hefur ýst út í enn vafasamari viðskiptahætti af því að við höfum verið að reyna að reisa starfseminni skorður.

Þetta er enn ein birtingarmynd þess að við þurfum að efla hér fjármálalæsi. Ég held að það sé gríðarlega mikilvægt. Þetta eru um það bil vitlausustu lán sem heimili geta tekið. Um það held ég að við getum öll verið sammála. Þau eru rándýr, það er mjög erfitt að standa skil á endurgreiðslum og vaxtastigið er óljóst og gríðarlega hátt. Fjármálalæsi og efling þess skiptir gríðarlega miklu máli. Að koma einhverjum böndum á starfsemina skiptir líka gríðarlega miklu máli, en við verðum að horfa á það heildstætt út frá því að við ýtum ekki bara starfseminni lengra undir yfirborðið því að hún virðist þrífast ágætlega, sama hvaða skilyrði henni hafa verið sett hingað til.

Ég hvet ráðherra eindregið til að skoða þetta mjög vandlega, hvernig best sé að bregðast við, og reyna að koma einhverjum böndum á þá starfsemi sem hér er um að ræða þannig að það virki raunverulega til lengri tíma litið.