148. löggjafarþing — 45. fundur,  9. apr. 2018.

smálán.

[16:21]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Ég vil ítreka þakkir til málshefjanda og fyrir þessa umræðu sem hefur augljóslega dregið fram að bregðast þarf við. Nú hefur þróunin orðið sú að gjarnan ungt fólk, oftast í neyð, leitar í auknum mæli til umboðsmanns skuldara þar sem vandi þess er að verulegu leyti í smálánaskuldum. Þar hefur orðið mikil breyting á. Nú eru slíkar skuldir orðnar hærra hlutfall af heildarskuldum en fasteignaskuldir hjá þessum hópi. Fram kom hjá umboðsmanni skuldara nú nýlega að þetta hlutfall er komið í 43% af heildarkröfum hjá þeim sem sækja um greiðsluaðlögun, frá því að vera 18% 2015.

Þessi vandi hefur þannig stigmagnast hratt á þeim þremur árum sem um ræðir og er augljóst að grípa verður í taumana. Ég fagna þess vegna því sem fram kom í máli hæstv. ráðherra að starfshópur muni fara vel yfir stöðu þessara fyrirtækja, þessarar starfsemi. Komið hefur fram að starfsemin er nú mikið til vistuð í útlöndum. Umboðsmaður skuldara hefur kvartað undan því þegar hann semur fyrir umbjóðendur sína, að eiga í vanda með að ná til þessara aðila til að ná samningum og koma fólki út úr þeim vítahring sem það er komið í.

Það er augljóst að af mörgu er að taka. Ég vil þó segja að það er afar mikilvægt, þar sem þessi fyrirtæki hafa komið sér undan þeim skilyrðum sem þó hafa verið sett í lög, að þau verði starfsleyfis- og skráningarskyld svo taka megi á því þegar þessi fyrirtæki verða uppvís að því að brjóta lög.