148. löggjafarþing — 45. fundur,  9. apr. 2018.

dreifing ferðamanna um landið.

[16:46]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Eins og við öll vitum þá er náttúra Íslands ein helsta ástæða komu ferðamanna til landsins og dreifing ferðamanna er byggðamál. Tækifæri til að nýta landið betur með aukinni dreifingu ferðamanna eru mikil. Í þeim efnum skipta góðar samgöngur höfuðmáli. Fjöldi ferðamanna sem heimsækir Vestmannaeyjar er mjög háður samgöngum um Landeyjahöfn svo dæmi sé tekið og tryggar og öruggar samgöngur eru síðast en ekki síst mikið öryggismál fyrir ferðamenn jafnt sem vegfarendur alla.

En það er ekki nóg að skrifa skýrslur um mikilvægi þess að dreifa ferðamönnum um landið þegar innviðir eins og vegakerfið eru ekki lagi. Ef við tökum dæmi af Vestfjörðum þá eru Vestfirðir mikil náttúruperla en það landsvæði hefur orðið töluvert út undan þegar kemur að dreifingu ferðamanna um landið og í því sambandi er mikilvægt að bæta samgöngur og að framkvæmdir eins og Dýrafjarðargöng, mikilvæg framkvæmd, klárist.

Athafnir verða að fylgja orðum. Aðbúnaður á helstu ferðamannastöðum verður að vera fólki bjóðandi. Nú um páskana var t.d. göngustígurinn að Svartafossi í Skaftafelli eitt drullusvað og við sáum í fréttum nýverið göngustíginn í Reykjadal við Hveragerði í sama ástandi. Einnig má nefna aðstöðuna við Jökulsárlón sem er einn vinsælasti ferðamannastaður landsins, aðstaðan þar er til skammar. Fjárveitingar til að byggja upp okkar helstu ferðamannastaði eru engan veginn nægilegar. Það var t.d. gagnrýnt að landeigendur fóru að taka gjald við Seljalandsfoss, gjaldtakan var hugsuð til þess að bæta aðstöðuna við fossinn. Það fylgdi hins vegar ekki sögunni að búið var að sækja þrisvar sinnum um í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða til þess að geta lagað aðstöðuna en umsóknum var alltaf synjað.

Herra forseti. Það er óhjákvæmilegt að skoða það alvarlega að koma á aðgangsstýringu við okkar helstu náttúruperlur eins og t.d. Landmannalaugar og við megum ekki vera feimin við það að loka sumum svæðum þegar nauðsyn krefur vegna álags. (Forseti hringir.) Ferðaþjónustuaðilar verða að sýna því skilning, mikið er í húfi. Aðgangsstýring lýtur að verndun á okkar dýrmætu náttúru, (Forseti hringir.) að öryggi ferðamanna og ekki síst að upplifun ferðamannsins verði sem best.