148. löggjafarþing — 46. fundur,  10. apr. 2018.

brottfall laga um Lífeyrissjóð bænda.

424. mál
[16:00]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef þá tilgátu að þetta mál sé undir álögum, það var 666. mál á 145. þingi, þess vegna gangi svo illa að koma því í gegn. Að öllu gamni slepptu ætla ég að spyrja út í það sama og hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir spurði út í áðan.

Ég hef fylgst með þessari lagadeilu Lífeyrissjóðs bænda og fjármálaráðuneytisins í umsögnum til þingsins, ég hef ekki séð nefndarálit reyndar koma út við fyrri framlagningar og málsmeðferðir sem hafa útkljáð málið, en rökstuðningur fjármálaráðuneytisins er vissulega til staðar og í sjálfu sér skýr.

Hins vegar velti ég fyrir mér hvort ekki megi koma til móts við áhyggjur Lífeyrissjóðs bænda með því að setja einfaldlega tímabundið ákvæði, t.d. í lög um lífeyrissjóði eða eitthvað því um líkt, að ekki sé einhvern veginn hægt að koma til móts við þetta. Þótt maður taki kannski einhverja afstöðu gagnvart þessari lagalegu deilu þá þarf hún ekki endilega að vera til staðar.

Ég hef líka pínulitlar raunverulegar áhyggjur af þessu vegna þess að það kom fram í umsögn á sínum tíma að Lífeyrissjóður bænda myndi ekki treysta sér til að setja þetta í samþykkt án lagastoðar. Óháð því hvort það sé lagatæknilega rétt eða ekki þá er það samt eitthvað sem ég óttast að gerist. Þá getur fjármálaráðuneytið svo sem bent á Lífeyrissjóð bænda og sagt að þeir hafi rangt fyrir sér. Gott og vel. Þá hefur það samt gerst. Ég held að hægt sé að komast hjá því, eða ég velti því upp, velti því fyrir mér og eins og ég segi, ég hef ekki séð nefndarálit um þetta mál. En ég velti fyrir mér hvort ekki sé hægt að koma til móts við þessar áhyggjur jafnvel þótt lagatæknin hjá Lífeyrissjóði bænda sé metin röng af fjármálaráðuneytinu.