148. löggjafarþing — 46. fundur,  10. apr. 2018.

dómstólar o.fl.

442. mál
[17:27]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að viðurkenna að mér finnst eitthvað pínulítið súrrealískt við það að fara hér upp í ræðu við hæstv. dómsmálaráðherra um skipan dómstóls eftir það sem á undan er gengið. Ég veit ekki alveg hversu mikið mig langar til að heyra af endurtekningum á þeim rökstuðningi sem ráðherrann hefur lagt fram áður í sambandi við hátterni sitt og vinnubrögð í kringum skipan Landsréttar. En mér finnst mikilvægt, til þess að gera ekki sömu mistökin aftur, að fólk læri eitthvað af því sem það gerir áður.

Fyrsta skrefið í því er yfirleitt að viðurkenna að eitthvað hafi farið úrskeiðis, að maður hafi gert eitthvað rangt. Það hefur að mínu viti skort algerlega hjá sitjandi hæstv. dómsmálaráðherra sem hefur bæði unað dómi Hæstaréttar en samt verið ósammála — samt sammála en samt ósammála, allur sá fráleiti málflutningur. En ég verð að spyrja hæstv. ráðherra hvort það sé eitthvað í reynslunni af skipan Landsréttar, málsmeðferðinni hér inni, málsmeðferðinni hjá Hæstarétti, sem hæstv. dómsmálaráðherra hafi lært af og muni nýta sér í framtíðinni, t.d. þegar kemur að skipan þessa nýja dómstigs. Því að þótt hlutverk ráðherra sé ekki endilega það ríkt samkvæmt þessum lögum, eins og ég skil þau á þessu stigi, er það þó eitthvað. Ég segi bara eins og er, eins og ég hef sagt áður og greitt atkvæði samkvæmt, að ég treysti þessum sitjandi dómsmálaráðherra ekki á nokkurn einasta hátt til þess að setja dómsstig eða skipa dómara. Það er enginn ráðherra sem ég get ímyndað mér sem ég treysti minna. Ég segi það bara.

Það sem gæti kannski aðeins slegið á það, ef hæstv. ráðherra yfir höfuð kærir sig um það, sem ég reyndar efast um, þá mundi það hugga mig eilítið að vita (Forseti hringir.) að eitthvað hefði lærst við skipan Landsréttar og eftirmála þess sem gæti nýst hæstv. ráðherra til að standa sig betur í þessum málum.