148. löggjafarþing — 46. fundur,  10. apr. 2018.

breyting á ýmsum lagaákvæðum sem tengjast fiskeldi.

457. mál
[19:30]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi á þskj. 656, sem er mál nr. 457. Hér er um að ræða breytingu á ýmsum lagaákvæðum sem tengjast fiskeldi. Frumvarp þetta er samið í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu í samráði við umhverfis- og auðlindaráðuneytið.

Með frumvarpinu eru lagðar til tilteknar breytingar á lögum nr. 71/2008, um fiskeldi, lögum nr. 60/2006, um varnir gegn fisksjúkdómum og lögum nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir.

Með samþykkt þessa frumvarps er hrint í framkvæmd stefnu ríkisstjórnarinnar sem fram kemur í stefnuyfirlýsingu hennar, en þar segir, með leyfi forseta:

„Fiskeldi er vaxandi atvinnugrein sem felur í sér tækifæri til atvinnuuppbyggingar en þarf að byggja upp með ýtrustu varúð í samræmi við ráðgjöf vísindamanna þannig að líffræðilegri fjölbreytni verði ekki ógnað. Samhliða vexti greinarinnar þarf að tryggja nauðsynlegar rannsóknir og eðlilega vöktun áhrifa á lífríkið. Eftir því sem fiskeldinu vex fiskur um hrygg þarf að ræða framtíðarfyrirkomulag gjaldtöku vegna leyfisveitinga.“

Frumvarpið byggist að stærstum hluta á tillögum starfshóps um stefnumótun í fiskeldi sem fram koma í skýrslu starfshópsins til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra frá því í ágúst á árinu 2017. Jafnframt er nokkrum ákvæðum laga um fiskeldi breytt eða þau felld brott í samræmi við ákvæði um lögbundna endurskoðun laganna.

Markmið þessarar lagasetningar er að styrkja lagaumgjörð fiskeldis þannig að íslensku fiskeldi séu sköpuð bestu möguleg skilyrði til uppbyggingar og fiskeldi verði þannig sterk og öflug atvinnugrein jafnframt því að stuðla að ábyrgu fiskeldi, þar sem sjálfbær þróun og vernd lífríkisins er höfð að leiðarljósi á grundvelli vísinda og rannsókna. Mikilvægt er við umræðu um þetta mál að átta sig á núverandi stöðu fiskeldis hér á landi.

Í skýrslu fyrrnefnds starfshóps er m.a. vísað til aðgangs að ferskvatni og borholusjó sem dæmi um þá styrkleika sem greinin býr yfir, auk ósnortinnar og óspilltrar náttúru. Þá væru hér engar hömlur á erlenda fjárfestingu og strangar kröfur væru gerðar til rekstraraðila. Sem dæmi um veikleika fiskeldis hér á landi nefnir starfshópurinn skort á rannsóknum í íslensku fiskeldi, veika innviði, tímafrekt leyfisveitingaferli og fjarlægð frá helstu mörkuðum.

Það er von mín að með þessari lagasetningu verði náð meiri sátt um uppbyggingu fiskeldisins þannig að það geti vaxið eðlilega í sátt við helstu hagsmunaaðila og ekki síst að ímynd íslensks fiskeldis verði umhverfisvæn sem aftur skapi sérstöðu íslenskra fiskeldisafurða á markaði.

Það er stefna stjórnvalda að gæta ýtrustu varúðar við uppbyggingu fiskeldis og byggja ákvarðanir sínar um framþróun fiskeldis á ráðgjöf vísindamanna. Það er nauðsynlegt fyrsta skref við framkvæmd þessarar stefnu að lögfesta áhættumat erfðablöndunar og endurskoðun þess. Frumvarpið gerir þannig ráð fyrir að Hafrannsóknastofnun gefi út áhættumat erfðablöndunar sem verði lagt til grundvallar leyfilegu magni af frjóum eldislaxi í sjókvíum á hverjum tíma. Matvælastofnun verði síðan skylt að breyta ákvæðum rekstrarleyfa í samræmi við útgefið áhættumat Hafrannsóknastofnunar. Mikilvægt er að koma megi í veg fyrir möguleg skaðleg áhrif erfðablöndunar eldisfisks við villta laxastofna og því nauðsynlegt að rekstrarleyfi endurspegli leyfilegt magn frjórra laxa í eldi þar sem hætta er á erfðablöndun.

Jafnframt er lagt til í frumvarpinu að áhættumatið verði endurskoðað reglulega af Hafrannsóknastofnun þannig að byggt verði á nýjustu niðurstöðum rannsókna og vöktunar á mögulegri erfðablöndun eldislaxa við villta stofna.

Vegna þessarar áherslu stjórnvalda á rannsóknir og vöktun lífríkisins gerir frumvarpið einnig ráð fyrir sérstakri heimild Hafrannsóknastofnunar til að stunda tímabundnar rannsóknir á fiskeldi í fiskveiðilandhelgi Íslands, stofnunin ein eða í samstarfi við aðrar. Slík heimild á að auðvelda og greiða fyrir nauðsynlegum rannsóknum vegna fiskeldis og þá sérstaklega eldistilraunum vegna sjókvíaeldis. Vegna niðurstaðna áhættumats erfðablöndunar getur komið til þess að gefin verði út rekstrarleyfi fyrir ófrjóan eldisfisk í umtalsverðu magni.

Í frumvarpinu endurspeglast sá vilji stjórnvalda að rekstrarleyfishafi nýti heimildir sínar til eldis á ófrjóum eldisfiski. Þannig er gert ráð fyrir að eldi á ófrjóum eldisfiski verði undanþegið árgjaldi í Umhverfissjóð sjókvíaeldis og hér er um tímabundna undanþágu að ræða sem gildir og ætlað er að gilda til ársloka ársins 2025. Markmið ákvæðisins er að hvetja til eldis ófrjórra laxa.

Jafnframt er í frumvarpinu sérstakt ákvæði sem felur í sér að heimildir til eldis á ófrjóum laxi falli niður eftir tilteknum reglum ef þær eru ekki nýttar. Falli slík framleiðsluheimild niður er gert ráð fyrir úthlutun hennar að nýju til áhugasamra eldisaðila í samræmi við nýjar leyfisveitingareglur.

Stjórnvöld leggja sérstaka áherslu á rannsóknir og eldi ófrjórra laxa sem geti komið í stað eldis með frjóum eldisstofni. Sama á við um eldi með lokuðum eldisbúnaði í sjó í stað hefðbundinna sjókvía.

Ég hef þannig ákveðið að láta fara fram úttekt á hagkvæmni þess að nota ófrjóan lax og lokaðan eldisbúnað í eldi hérlendis. Það er von mín að með slíkri úttekt verði hægt að nota þessar eldisaðferðir í meira mæli í framtíðinni og þá um leið draga smám saman úr notkun á frjóum eldisfiski í sjókvíum. Ég geri ráð fyrir að þessari úttekt verði lokið fyrir 1. desember árið 2019 með tillögu um mögulegar aðgerðir í þessa veru.

Núverandi lagaumhverfi vegna leyfisveitinga býður upp á kapphlaup umsækjenda um eldissvæði þar sem fiskeldisfyrirtæki velja sér svæði. Þetta kapphlaup getur leitt af sér ágreining milli umsækjenda varðandi afmörkun eldissvæða og ósamræmi við aðra nýtingu í viðkomandi fjörðum. Jafnframt er ekki tryggt að heildarnýting svæðanna sé sem hagkvæmust. Í ljósi þessa eru lagðar til breytingar á núverandi fyrirkomulagi leyfisveitinga. Þannig er lagt til að eldissvæðum verði skipt upp snemma í leyfisveitingaferlinu eftir ítarlegt umsagnarferli. Hafrannsóknastofnun mun þannig skipta upp þeim hafsvæðum sem eftir er að burðarþolsmeta í hentug eldissvæði með hagkvæmasta nýtingu í huga. Frumvarpið gerir síðan ráð fyrir að þessum eldissvæðum verði úthlutað með opinberri auglýsingu og á grundvelli hagstæðasta tilboðs.

Lagt er til að við mat á hagstæðasta tilboði komi m.a. til skoðunar reynsla af fiskeldisstarfsemi, samfélagsleg ábyrgð, fjárhagslegur styrkur og mælikvarðar sem mæla hvernig tilboðsgjafi hefur stundað sinn rekstur og upplýsingar um það hvernig tilboðsgjafi hyggst starfa, m.a. út frá umhverfissjónarmiðum. Gert er ráð fyrir að tilboðsgjafi greiði tiltekið verð fyrir þessi leyfi og þau verði ótímabundin. Til samanburðar eru núverandi rekstrarleyfi gefin út til tíu ára í senn, en rekstrarleyfishafi greiðir ekkert fyrir slíkt leyfi samkvæmt núgildandi löggjöf. Þá má geta þess að í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu er nú unnið að frumvarpi til laga um auðlindagjald í fiskeldi, en byggt er á tillögu starfshóps um stefnumótun í fiskeldi við útfærslu gjaldsins.

Í frumvarpinu er lagt til að tekið verði upp í lög nr. 71/2008, um fiskeldi, sérstakt ákvæði sem fjallar um innra eftirlit fiskeldisstöðva. Þannig eru kröfur um innra eftirlit gerðar skýrari. Með nýju almennu lagaákvæði um innra eftirlit er Matvælastofnun heimilað að draga úr tíðni eftirlitsheimsókna hjá rekstrarleyfishöfum. Með þessu ákvæði er kominn vísir að áhættumiðuðu eftirliti með fiskeldi sem þýðir að fiskeldisfyrirtæki sem hafa sinn rekstur í lagi og starfa í samræmi við kröfur laga og stjórnvaldsfyrirmæla fá færri eftirlitsheimsóknir en þau sem ekki uppfylla kröfurnar. Að auki verður heimilað að leggja á rekstrarleyfishafa stjórnvaldssektir ef brotið er gegn ákvæði um innra eftirlit, sannprófun þess og framkvæmd úrbóta.

Vegna mikilvægis eftirlits með laxalús gerir frumvarpið ráð fyrir að innra eftirlit með sjókvíaeldi feli í sér vöktun á viðkomu laxalúsar í eldinu. Niðurstöður vöktunar skulu sendar Matvælastofnun sem metur hvort og þá hvaða aðgerða er þörf vegna laxalúsar í viðkomandi fiskeldi. Niðurstöður vöktunarinnar skal jafnframt birta opinberlega. Einnig er lagt til að sett verði skýr reglugerðarheimild í lög nr. 60/2006, um varnir gegn fisksjúkdómum, um vöktun og aðgerðir vegna laxalúsar. Þannig verður hægt að kveða á um skyldu rekstraraðila til að telja laxalús við tilteknar aðstæður og bregðast við fjölgun lúsarinnar ef upp koma aðstæður sem kalla á slík viðbrögð, en mikilvægt er að stjórnvöld bregðist hratt við ef þörf er á sérstökum aðgerðum vegna þessarar óværu.

Frumvarpið gerir ráð fyrir að upplýsingagjöf fiskeldisfyrirtækja til stjórnvalda verði umfangsmeiri og tíðari en nú er. Rökin fyrir auknum kröfum um upplýsingar eru þau að stjórnvöld þurfa að fylgjast með framleiðslumagni, þróun á nýtingu leyfa og hámarki leyfilegrar framleiðslu á tilteknu svæði vegna eftirlits og ekki síst stefnumótunar greinarinnar. Gert er ráð fyrir að stjórnvöld fái heimild til að birta opinberlega tilteknar upplýsingar úr rekstri fyrirtækja og niðurstöður eftirlits, m.a. með rafrænum hætti. Jafnframt verður stjórnvöldum heimilt að birta opinberlega ákvarðanir um þvingunaraðgerðir og viðurlög. Markmiðið með þessu öllu saman er að auka gegnsæi í starfsemi fiskeldisfyrirtækjanna og með þessum lagabreytingum er verið að veita almenningi upplýsingar um það hvernig einstök fyrirtæki uppfylla kröfur laga og stjórnvaldsfyrirmæla. Birting upplýsinga úr eftirliti og möguleg viðurlög veita þannig fyrirtækjum aðhald og eykur varnaðaráhrif löggjafarinnar.

Í frumvarpinu er það nýmæli að Matvælastofnun skal auglýsa tillögu sína að rekstrarleyfi til fiskeldisfyrirtækja. Matvælastofnun hefur hingað til ekki auglýst tillögu að rekstrarleyfi, en núverandi fyrirkomulag við útgáfu leyfisins hefur verið gagnrýnt. Telja verður rétt að gefa almenningi, frjálsum félagasamtökum og þeim sem hafa hagsmuna að gæta, beint eða óbeint, tækifæri til athugasemda eða ábendinga varðandi útgáfu leyfisins og skilmála þess. Matvælastofnun getur þannig tekið afstöðu til þeirra athugasemda og ábendinga áður en hún gefur rekstrarleyfið út. Jafnframt er það áréttað að stofnunin skuli auglýsa útgáfu rekstrarleyfis. Þetta fyrirkomulag er í samræmi við gildandi ákvæði laga um hollustuhætti og mengunarvarnir.

Gert ráð fyrir að Matvælastofnun fái heimild til að leggja stjórnvaldssektir á fiskeldisfyrirtæki sem brjóta gegn tilteknum ákvæðum laga um fiskeldi. Gildandi stjórnsýsluviðurlögum í lögum um fiskeldi verður einungis beitt vegna ítrekaðra og mjög alvarlegra brota á lögum, og þjóna því illa tilgangi sínum. Með tilkomu ákvæðis um stjórnvaldssektir er mögulegt að haga sektum í samræmi við fjárhagslegan ávinning brotsins og þannig beita úrræðum sem hafa veruleg varnaðaráhrif gagnvart þeim aðilum sem ber að fara að lögum.

Frumvarpið gerir ráð fyrir að starfsemi fiskeldisstöðva verði eins og áður háð starfsleyfi sem Umhverfisstofnun gefur út og hefur eftirlit með. Í tillögum starfshóps um stefnumótun í fiskeldi var gert ráð fyrir tilkynningarskyldu til Umhverfisstofnunar ef Umhverfisstofnun myndi hætta útgáfu starfsleyfa.

Þessi breyting frá tillögum starfshópsins var gerð að höfðu samráði við umhverfis- og auðlindaráðherra. Það er von mín að þrátt fyrir þetta frávik frá tillögum starfshópsins og þeirri sátt sem þar var gerð verði samstaða um efni þessa frumvarps. Ég vil í því sambandi ítreka að eitt meginmarkmið með þessari lagasetningu er að náð verði meiri sátt um uppbyggingu fiskeldisins milli helstu hagsmunaaðila þannig að fiskeldið geti vaxið eðlilega.

Virðulegi forseti. Ég hef einungis tíundað nokkur af helstu efnisatriðum frumvarpsins. Ég vil að öðru leyti vísa til greinargerðar þess, en þar er ítarlega fjallað um og gerð grein fyrir efni frumvarpsins. Það er trú mín að verði frumvarpið að lögum muni áhrif stjórnvalda á framtíðaruppbyggingu fiskeldis aukast. Það mun leiða til þess að við getum tekið markvissari ákvarðanir um framtíðaruppbyggingu fiskeldis hér á landi og þannig verði meiri skilningur og meiri sátt um uppbyggingu greinarinnar undir ströngum kröfum umhverfisins.

Áhrifin verða líka þau að gerðar verða auknar kröfur gagnvart rekstrarleyfishöfum með takmörkunum á eldi frjórra laxa og með auknu og skilvirkara eftirliti. Með auknu gegnsæi í rekstri fiskeldisfyrirtækja og skýrum viðurlögum geri ég einnig ráð fyrir auknum varnaðaráhrifum þessarar löggjafar.

Ég sagði í upphafi máls míns að markmið þessarar lagasetningar væri að styrkja lagaumgjörð fiskeldis þannig að íslensku fiskeldi verði sköpuð bestu skilyrði til uppbyggingar þannig að það verði sterk og öflug atvinnugrein hér á landi. Ef slík uppbygging fiskeldis gengur eftir má gera ráð fyrir jákvæðum áhrifum á byggðarlög. Hér er að sjálfsögðu helst horft til fjölgunar starfa, en með auknum umsvifum fiskeldisins munu tekjur sveitarfélaga og ríkisins af fiskeldinu einnig aukast. Samhliða uppbyggingu fiskeldis munu kröfur um innviðauppbyggingu og þjónustu í viðkomandi sveitarfélögum aukast. Þannig má gera ráð fyrir auknum útgjöldum ef efla þarf samfélagsþjónustu við íbúa og bæta samgöngur.

Í því sambandi er rétt að ítreka að í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu er unnið að frumvarpi til laga um auðlindagjald í fiskeldi. Þar verður lagt til að rekstrarleyfishafar sem stunda fiskeldi í sjókvíum greiði auðlindagjald. Ekki er gert ráð fyrir að fiskeldi sem stundað er á landi greiði slíkt gjald. Þannig er byggt á því að auðlindagjald verði lagt á öll eldisfyrirtæki sem nýta sameiginlega auðlind til starfseminnar. Gengið er út frá því að stærstur hluti auðlindagjaldsins renni til uppbyggingar innviða á þeim svæðum sem nýtast við uppbyggingu fiskeldisins. Hér er horft til uppbyggingar samfélagslegrar þjónustu og samgangna á svæðum sem hafa aðkomu að eldi í sjókvíum. Jafnframt hefur verið horft til þess að hluta auðlindagjalds verði ráðstafað sem framlagi til Umhverfissjóðs sjókvíaeldis, m.a. til þess að efla vöktun og rannsóknir í fiskeldi.

Virðulegi forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til 2. umr. og hv. atvinnuveganefndar.