148. löggjafarþing — 47. fundur,  11. apr. 2018.

fjármálaáætlun 2019--2023.

494. mál
[20:57]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (Flf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir innlegg hans í málið og fyrirspurnina.

Mig langar til að vekja athygli á því að það er áberandi í umræðu í kringum þessa fjármálaáætlun að ætlunin sé að lækka lægra þrep tekjuskattsins um 1 prósentustig. Þá kemur fjármálaráðherra sem er út af fyrir sig að tala fyrir breytingu sem er allra góðra gjalda verð og jákvæð og segir: Ja, við höfum áður séð slíkar lækkanir. Það hefur leitt til þess að tekjur ríkissjóðs hafa aukist.

Með öðrum orðum, fjármálaráðherra segir okkur að það sé hægt að grípa til slíkra aðgerða án þess að það kosti ríkissjóð nokkurn skapaðan hlut. Fjármálaráðherra segir okkur að það sé hægt að grípa til slíkra aðgerða og að ríkissjóður hagnist jafnvel á því. Þetta er í algjörri andstöðu við það sem fjármálaráðherra hefur sagt um ýmis önnur mál, leyfi ég mér að segja. Fjármálaráðherra hefur fundið að frítekjumarkinu, haft alls konar tölur á lofti um að það kosti 1 milljarð eða 2 milljarða að fella það niður og það sé alveg eiginlega óbærilegt að vera fjármálaráðherra þegar allar þessar tölur séu á sveimi.

Staðreyndin er sú, herra forseti, að þær tölur koma hvergi nema úr ráðuneyti hæstv. ráðherra. Af hálfu þeirra sem hafa barist fyrir því að þetta frítekjumark verði fellt niður hefur bara verið sett fram ein tala. Hver er hún? Hún er núll, að það kosti ekki neitt að fella það niður vegna skatta af þeim tekjum sem myndu myndast við það að það yrði slakað á klónni gagnvart fólki í þessum efnum. Það myndi leiða til þess að ríkissjóður yrði skaðlaus og gæti jafnvel haft ávinning af slíkum breytingum.

Það nákvæmlega sama á við þegar við erum að tala um það kerfi sem hv. þm. Þorsteinn Víglundsson nefndi hér, þessa mannfjandsamlegu, leyfi ég mér að segja, krónu á móti krónu skerðingu, það er bara hægt að fara út úr því kerfi (Forseti hringir.) án þess að það kosti nokkurn skapaðan hlut.

Og ég segi: Burt með þetta.